Tveir í einangrun á Norðurlandi vestra
Fjögur ný kórónuveirusmit greindust innanlands í gær og voru allir einstaklingarnir í sóttkví við greiningu. Tveir þeirra greindust við sóttkvíarskimun og tveir við einkennaskimun. Allir voru í sóttkví við greiningu. Alls voru tekin 392 sýni innanlands í gær og 619 sýni voru tekin á landamærunum.
Á upplýsingafundi almannavarna í morgun sagði Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, að útlit sé fyrir að við séum að komast út úr þessari bylgju en lítið megi þó út af bregða til að ekki komi afturkippur í faraldurinn. Hann segir ennfremur ástæðu til að hvetja alla sem finni fyrir minnstu einkennum til að fara í sýnatöku og halda sig heima þar til niðurstaða fæst úr henni.
Í tilkynningu frá aðgerðastjórn almannavarna á Norðurlandi vestra kemur fram að nú eru tveir aðilar í einangrun á Norðurlandi vestra og tveir eru í sóttkví. Tekið er fram að báðir aðilar voru í sóttkví er þeir greindust og hvorugt tilfellið er tilkomið vegna smits í umdæminu.
„Höldum vöku okkar áfram, sinnum okkar persónulegu smitvörnum og stefnum að því að halda lágstemmdar hátíðir sem framundan eru,“ segir í tilkynningunni.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.