Þungt, lærdómsríkt og óútreiknanlegt
ÁR ÞÚ VEIST HVAÐ :: „Hljóðið á Akureyri,“ segir Rakel Hinriksdóttir þegar Feykir spyr hvað hafi verið broslegast á árinu. Rakel býr á Akureyri, er grafískur hönnuður en starfar við dagskrárgerð og verkefnastjórn hjá N4. Hún notar skónúmer 38 og er í tvíburamerkinu. Í þremur orðum var árið þungt, lærdómsríkt og óútreiknanlegt að mati Rakelar.
Hver er maður ársins? Það hlýtur að vera þríeykið. Seyðfirðingar eru mér ofarlega í huga á þessari stundu líka.
Hver var uppgötvun ársins (fyrir utan bóluefni við þú veist hvað)? Að það væri óþarfi að fara erlendis, margir að átta sig á því að það þarf ekki alltaf að sækja vatnið yfir lækinn.
Hvað var lag ársins? Viðeigandi að söngla með Elton John "The Bitch is back" í hverri nýrri bylgju.
Hvað var broslegast á árinu? Hljóðið á Akureyri. Villi vandræðaskáld kom með áhugaverða tilgátu í vinnunni, að þetta væri í raun Pálmi Gunnarsson við söngæfingar.
Hvað var það sem þú sérð mest eftir að hafa ekki geta gert á árinu vegna þú veist hvað? Ég hefði viljað fá að mæta á fyrstu skólasetningu sonar míns, sem byrjaði í fyrsta bekk.
Varp ársins? Ég verð að segja allir sjónvarpsþættir N4! Annars er ég aðdáandi Borgþórssystra á Egilsstöðum sem halda uppi podcastinu Morðcastið.
Matur eða snakk ársins? Kaffi og meira kaffi.
Hverju viltu skella á brennuna og hvers vegna? Sonur minn sagðist um daginn vilja henda Covid í ruslið. Sennilega verð ég að taka undir með honum og skella veirunni á bálið.
Hver var helsta lexía ársins? Það er hægt að áorka miklu þegar mikið liggur við, samanber breytingarnar sem Covid faraldurinn hafði á þjóðina. Nú þurfum við að beita svipuðum krafti í baráttunni gegn hinni ógninni sem að okkur steðjar, loftslagsbreytingum. Þar er ekkert minna í húfi.
- - - - -
Uppfært kl. 13:12: Blaðamaður biðst afsökunar að hafa hlaupið örlítið á sig en hann hefur með einbeittum brotavilja reynt að fullvissa lesendur um að Rakel hafi búið í Blönduhlíðinni en það er nú ekki alveg þannig. Hún er vissulega dóttir Hinriks á Syðstu-Grund en er uppalin í Reykjadalnum. Í Jólablaði Feykis segir líka að eiginmaður hennar sé harmonikkuleikarinn Jón Þorsteinn Reynisson frá Mýrarkoti á Höfðaströnd.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.