Sýrlendingarnir komnir með íslensk ökuréttindi

Selma ásamt hluta Sýrlendinganna. Mynd: huni.is
Selma ásamt hluta Sýrlendinganna. Mynd: huni.is

Þau gleðitíðindi birtust á vef Húnahornsins fyrir helgi, að sýrlenska flóttafólkið sem kom til Blönduóss og Hvammstanga á síðasta ári, er nú flest allt komið með ökuréttindi. Var það ökukennarinn Selma Svavarsdóttir sem sá um kennsluna og nefnir hún að verkefnið hafi ekki verið einfalt.

Þurfti Selma að styðjast við túlk til að hjálpa nemendunum í gegnum bóklega efnið og fyrir prófið en æfingaaksturinn fór fram hjá stuðningsfjölskyldunum. Segir Selma að regluverkið sé þessum hópi ekki hliðholt þar sem þau hafi einungis sjö mánuði til þess að yfirfæra ökuréttindi sín frá þeirra heimalandi þannig að þau gildi hér. Fyndist henni réttast að sá tími væri allt að 12 mánuðir.

Alls hafa nú 16 öðlast íslensk ökuréttindi af þeim 18 fullorðnu sem í hópnum eru. Níu voru með sýrlensk ökuskírteini við komuna hingað til lands. Selma segir að allt hafi þetta þó hafist að lokum og að hún sé afar stolt af þessum hópi. „Öll hafa þau lagt mikið á sig til að ná prófunum. Þau lærðu og lærðu, voru jákvæð, glöð og þakklát, sama hvað. Ég er svo heppin að kynnast svona frábæru fólki.“ segir Selma í frétt Húnahornsins.

/SHV

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir