Sumaropnun Heimilisiðnaðarsafnsins

Elín afhendir Björgu Eiríksdóttur, listakonu, Vefnaðarbók Halldóru. MYND DANÍEL ORRI GUNNARSSON.
Elín afhendir Björgu Eiríksdóttur, listakonu, Vefnaðarbók Halldóru. MYND DANÍEL ORRI GUNNARSSON.

Sumarsýning Heimilisiðnaðarsafnsins Skynið fyllir vitund eftir listakonuna Björgu Eiríksdóttur var opnuð 1. júní og bar upp á fyrsta venjubundinn opnunardag safnsins.

Um er að ræða óhefðbundin útsaumsverk þar sem listakonan notar nálina og þráðinn til að túlka upplifun sína á náttúrunni og tenginguna við láð og lög.

Björg á fjölþætt nám að baki bæði innanlands og utan í myndlist og listkennslu. Hún hefur tekið þátt í fjölda samsýninga og er þetta fimmtánda einkasýning hennar. Björg var valin bæjarlistamaður Akureyrar árið 2018.

Við opnunina sungu og spiluðu vinkonurnar Inga Rós Suska Hauksdóttir og Sóley Sif Jónsdóttir og ljáðu athöfninni ljúfan blæ með tónum sínum.

Í ávarpsorðum Elínar forstöðukonu kom fram, hve tilkoma hins nýja safnhúss sem vígt var vorið 2003 hefði opnað miklar nýjar víddir um gott aðgengi gesta að safninu og munum þess sem og allri starfsemi þess. Safnið starfar í samræmi við safnalög og er viðurkennt af Safnaráði, en til að hljóta slíka viðurkenningu þarf safn að uppfylla fjölmörg skilyrði bæði um sjálfstæði, eignarhald og ábyrgð í rekstri, auk þess að standast sérstakar úttektir. Þá lét hún þess getið að fyrir utan hið hefðbundna safnastarf færu fram í safninu ýmsir viðburðir s.s. stofutónleikar, málstofur, fyrirlestrar, námskeið, upplestur á aðventu fyrir utan sérstakar heimsóknir nemenda frá grunnskólaaldri til fullorðinsára, innlendra og erlendra. Algengt væri að fólk sækti sér heimildir í safnmuni vegna rannsóknaverkefna og ritgerða allt til doktorsprófs.

Elín vakti athygli á að margar bækur hefðu verið ritaðar og þýddar á ýmiss tungumál sem byggja að hluta til eða að öllu leiti á safnmununum. Vinna við varðveislu, forvörslu og skráningu safngripa væri hluti af innra starfi safnsins sem og umfangsmikil rannsóknavinna sem sérstaklega hefur verið unnið að núna síðustu árin og er hið nauðsynlega en ósýnilega í starfsemi safnsins.

Einnig vék Elín í stuttu máli að reglulegu viðhaldi safnhússins sem reynt hefur verið að sinna eftir því sem fjárráð hafa leyft og hefur náðst að gera við þökin á sýningarsölum safnsins.

Elín lagði síðan áherslu á hve sérsýningar safnsins hafi vakið mikla athygli allt frá því að safnhúsið var vígt. Þessi hugmynd að bjóða textíllistafólki á Íslandi að setja upp sýningu á hverju vori hefði í raun slegið í gegn og skapaði tilefni til að heimsækja safnið árlega. Allar sýningarnar hefðu verið mjög ólíkar frá ári til árs en eiga það þó sameiginlegt að gefa innsýn í fjölbreytta lisköpun og handmennt á Íslandi.

Ágætis aðsókn var á opnunina og mjög ánægjulegt hve héraðsbúar taka ævinlega vel á móti listafólki sem heimsækir safnið.

Eftir opnunina var boðið upp á kaffi og kleinur og áttu viðstaddir notalega stund í kaffirými safnsins.

Myndirnar voru allar teknar af Daníel Orra Gunnarssyni. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir