Stormur, snjókoma og gul viðvörun
Nú er í gildi gul viðvörun vegna veðurs fyrir Faxaflóa, Breiðafjörð, Vestfirði og Strandir og Norðurland vestra, þar sem íbúar svæðisins mega búast við hvassviðri, stormi, snjókomu og skafrenningi. Þá er varað við versnandi akstursskilyrði en blint getur orðið einkum á fjallvegum. Á heimasíðu Vegagerðarinnar kemur fram að á Holtavörðuheiði sé hálka og hvassviðri og vegna vinnu við Heiðarsporð er umferðarhraði lækkaður niður í 50 km/klst. og gæti komið til stuttra lokana næstu vikur.
Hvassviðri víða og þæfingsfærð og skafrenningur er á Siglufjarðarvegi og óvissustig vegna snjóflóðahættu er í gildi. Einnig er óvissustig vegna snjóflóðahættu í Ólafsfjarðarmúla.
Veðurstofan gerir ráð fyrir norðaustan 10-18 m/s og snjókomu, en norðan 15-23 og úrkomumeira síðdegis á spásvæði Stranda og Norðurlands vestra. Norðan 13-20 og snjókoma eða slydda á morgun, úrkomumest á Ströndum. Hiti nálægt frostmarki.
Á föstudag:
Norðan og norðaustan 10-18 m/s og snjókoma norðan- og austanlands, hvassast undir Vatnajökli, en annars bjart með köflum. Vægt frost víða um land, en frostlaust syðra yfir daginn.
Á laugardag:
Norðan 8-15 m/s og dálítil él á N-verðu landinu, en léttskýjað sunnan heiða. Frost 0 til 7 stig, minnst SA-lands.
Á sunnudag:
Norðlæg átt, 3-10 m/s og skýjað með köflum, en stöku él á A-landi. Áfram kalt í veðri.
Á mánudag:
Vaxandi suðaustanátt og með slyddu eða rigningu síðdegis, en þurrt fyrir norðan og austan. Hlýnandi veður.
Á þriðjudag:
Suðlæg átt með vætu, en bjart norðan og austan til. Hiti 2 til 7 stig.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.