Stórlaxar veiðast í húnvetnsku ánum
Óhætt er að segja að laxveiðin fari vel af stað í húnvetnsku ánum en um helgina veiddust þar tveir laxar sem mældust 101 sm, sá fyrri í Víðidalsá á laugardaginn og hinn í Blöndu í gærmorgun.
Á veiðivef mbl.is, Sporðaköstum, kemur fram að laxinn í Víðidalsá hafi verið fyrsti lax sumarsins sem náði 100 sentimetrunum á þessu sumri en það var breski kvikmyndaleikarinn James Murray sem setti í fiskinn í Harðeyrarstreng og barðist við hann í rúman hálftíma. Sögunni fylgir að þetta sé stærsti lax sem Murray hefur veitt og því ekki að undra að gleði leikarans hafi verið mikil þegar félagi hans, kvikmyndaleikarinn Robson Green, háfaði fiskinn. „Heyra mátti gleðiöskrin víða um Víðidal,“ segir á Sporðaköstum. Þar er einnig haft eftir Pétri Pálssyni sem veiddi laxinn í Blöndu í gær að það vekji sérstaka athygli að um hrygnu er að ræða en algengara sé að hængar rjúfi 100 sentimetra múrinn.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.