Stefán Vagn stefnir á efsta sæti á lista Framsóknar fyrir þingkosningar í haust
Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn og formaður byggðarráðs Svf. Skagafjarðar, hefur ákveðið að gefa kost á sér til að leiða lista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi fyrir næstu alþingiskosningar. Hann hafði áður gefið kost á sér í annað sæti listans en gírar sig nú upp í efsta sætið í kjölfar þess að Ásmundur Einar Daðason söðlar um og gefur kost á sér á lista Framsóknar í Reykjavíkurkjördæmi norður.
Stefán Vagn sendi frá sér eftirfarandi yfirlýsingu nú undir kvöldið:
„Kæru vinir.
Í ljósi yfirlýsingar Ásmundar Einars Daðasonar félags- og barnamálaráðherra um að gefa kost á sér í 1. sætið á lista Framsóknarflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður hef ég tekið ákvörðun að gefa kost á mér til að leiða lista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi fyrir næstu alþingiskosningar og skipa þannig 1. sæti listans.
Ég hafði áður verið búinn að gefa út að ég sæktist eftir öðru sæti listans en eins og áður sagði hafa hlutir nú breyst og staðan orðin önnur.
Ég vil um leið nota tækifærið til að þakka þeim fjölmörgu sem hafa hvatt mig áfram í þessari vegferð því ljóst er að þetta er ekki ferð sem maður fer í einsamall.
Stefán Vagn Stefánsson“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.