Spor - sumarsýning Heimilisiðnaðarsafnsins

Mynd:http://textile.is/
Mynd:http://textile.is/

Sumaropnun hefur nú tekið gildi hjá Heimilisiðnaðarsafninu á Blönduósi og er nú opið frá klukkan 10-17 alla daga. Hefð er fyrir því að bjóða upp á nýja sérsýningu í safninu við hverja sumaropnun og að þessu sinni er það sýningin Spor sem sett er upp hjá safninu. Að sýningunni stendur Arkir bókverkahópur, sem telur ellefu íslenskar listakonur, Auk þess eiga nokkrar erlendar listakonur verk á sýningunni en þær eiga það sameiginlegt að hafa dvalið á Textílsetrinu/Textílmiðstöðinni í Kvennaskólanum á Blönduósi. 

„Nafn sýningarinnar vísar til nýrra „Spora” sem má ef til vill rekja til troðinna slóða, rótgróinna aðferða og leiða í íslensku textílhandverki að fornu og nýju. Nokkur verkanna hafa beina skírskotun til muna Heimilisiðnaðarsafnsins, vísa til minninga fyrri kynslóða, textílhefða, útsaums,  vefnaðar, jurtalitunar, auk þess að vera innblásin af náttúru Íslands, menningu kvenna og sögu. „Hvað tjáir bók án orða?” 

Sjaldgæft er að listgreinar á borð við bóklist og textíllist tvinnist saman en hér ná listakonurnar að nýta sér tækni og aðferðir textíllista við bókverkagerð og sameina þannig myndlist, hönnun og handverk,“ segir í kynningu sýningarinnar á heimasíðu safnsins

Konurnar sem eiga verk á sýningunni eru:

Anna Snædís Sigmarsdóttir
Arnþrúður Ösp Karlsdóttir
Áslaug Jónsdóttir
Bryndís Bragadóttir
Helga Pálína Brynjólfsdóttir
Ingiríður Óðinsdóttir
Jóhanna Margrét Tryggvadóttir
Kristín Guðbrandsdóttir
Kristín Þóra Guðbjartsdóttir
Sigurborg Stefánsdóttir
Svanborg Matthíasdóttir
Julia Boros
Catherine Ferland
Anne Greenwood
Cornelia Theimer Gardella
Emily Yurkevicz

Sérsýningar safnsins hafa verið afar ólíkar frá ári til árs og aukið við fjölbreytileika í sýningarflóru safnsins. Í kynningu segir að þessi sýning sé einstaklega falleg og muni veita safngestum nýja og fjölbreytta sýn á margskonar handíð og hve óendanlega er hægt að nýta safnkostinn sem uppsprettu hugmynda að nýrri nálgun til ólíkra verka. 

Venja er að opna sumarsýningar safnsins með formlegum hætti en vegna aðstæðna í þjóðfélaginu var það ekki hægt að þessu sinni. Vonir standa til að það verði gert síðar í sumar.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir