Sögur frá landi í Sjónvarpinu í kvöld
Það má sennilega fullyrða að Norðurland vestra hafi fengið óvenju mikla athygli í sjónvarpsstofum landsmanna í sumar en bæði N4 og Landaþættir RÚV hafa verið duglegir að banka upp á hjá okkur. Í kvöld sýnir RÚV fyrsta þátt af þremur sem kallast Sögur frá landi og eru teknir upp á Norðurlandi vestra.
Feykir náði í skottið á Árna Gunnarssyni kvikmyndagerðarmanni hjá Skottafilm og spurði um efni þáttanna. „Þátturinn sem er á dagskrá í kvöld heitir Á Sturlungaslóð, hann er sýndur kl. 19:40 á RÚV, “ segir Árni. „Næsti þáttur verður eftir viku og fjallar um Grettissögu og síðasti þátturinn verður 27. ágúst og fjallar hann um síðustu aftökuna á Íslandi.“
Það er skagfirska kvikmyndafélagið Skottafilm sem framleiðir þættina og leikstjóri er Árni Gunnarsson. Umsjónarmenn eru Hlédís Sveinsdóttir og Hallgrímur Ólafsson. Þættirnir eru styrkir af SSNV.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.