Slagarasveitin með tónleika á Hvammstanga
Hin alhúnvetnska hljómsveit, Slagarasveitin, heldur tónleika á veitingastaðnum Sjávarborg á Hvammstanga föstudagskvöldið 19. ágúst 2022. Fram kemur á FB-síðu viðburðarins að fyrir tónleikana hefur sveitin fengið aukalega til liðs við sig Aldísi Olgu Jóhannesdóttur, Einar Friðgeir Björnsson, Guðmund Hólmar Jónsson og Kristínu Guðmundsdóttur.
Slagaraveitina skipa þeir félagar Geir Karlsson, Ragnar Karl Ingason, Skúli Þórðarson ,Stefán Ólafsson og Valdimar H. Gunnlaugsson. Upp á síðkastið hafa strákarnir verið duglegir að senda frá sér tónsmíðar en nú þegar hafa sjö lög hljómsveitarinnar komið út og er hægt að nálgast þau á tónlisarveitinni Spotify og YouTube. Tónlistan spannar góða breidd; sígilt rokk, hestamannahopp og diskó þar á meðal.
„Á Hvammstanga munum við flytja 16 frumsamin lög. Sjö þeirra hafa þegar komið út og eitt til viðbótar, sem heitir Þannik kviknar ástin, kemur vonandi út í vikunni. Svo eru þrjú til fjögur lög til viðbótar í vinnslu,“ sagði Stefán Ólafsson þegar Feykir forvitnaðist um tónleikana en hann segir Slagarasveitina stefna á að gefa út plötu í haust og munu þá fylgja henni eftir með fleiri tónleikum.
Tónleikarnir hefjast kl. 22:00 á föstudaginn. Aldurstakmark er 18 ára og aðgönguverð er 3.000 kr. Miðapantanir á slagarasveitin@gmail.com eða í sms/símanr. 844 2834 (Raggi) / 868 8938 (Aldís).
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.