Skyttudalur Í Laxárdal - Torskilin bæjarnöfn
Þannig er bærinn alment nefndur nú, og það er sett sem aðalnafnið í Fasteignabókinni (bls. ll2). En það er með öllu rangt. Rjetta nafnið, Skytna-, hefir einmitt haldist við fram um miðja síðustu öld (sbr. Ný. J.bók), en samt hefir bólað á afbökun um 1700: „Skipna-“ („Nú alm. Skipna-„ Á. M. Jarðabók 1703). Svo hefir það horfið aftur, en afbakast að nýju í Skyttu-. Elzta vitnið um nafnið er landamerkjabrjef Bólstaðarhlíðar 1382, því þar er ritað: „Skytnadalsbotnar“ (landamerki) (DI. III. 360).
Jörðin er svo allvíða nefnd eftir þetta og ætíð á, sömu leið: Skytna- (sjá m.a. DI. III. 42l, 477 o. v.). Bærinn dregur vafalaust nafn af viðurnefninu skyti þ. e. bogmaður (skyti af skot), sem er gamalt og gott orð: “Kom þar af veiðum | veðreygr skyti“ segir í Völundarkviðu (Sæm.-E. b. 149). Og auknefnið þekkist líka
úr fornsögum: Eylífr skyti er nefndur í Ljósvetningas. (bls. 37 o. v.) og Auðunn skyti í Sturlungu (II. 260) Skytna er eignarf. fleirt. af skyti. Og jafnvel þótt yngsti tilbúningurinn Skyttu- þýði nokkuð hið sama, er einsætt að hafa eldra nafnið, sem geymir forna mynd orðsins. Eflaust hefir verið mikið um rjúpnadráp fyrrum kringum Skytnadal, því rjúpnaland er þar gott og veiðisælt.
Rannsóknir og leiðréttingar Margeirs Jónssonar
Áður birst í 2. tbl. Feykis 2021
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.