Skrímsli á Skagaströnd
Þeir sem hafa gaman að því að forvitnast um hafnir landsins og það sem þar kemur á land geta gert margt verra en að skoða Facebook-síðu Skagastrandarhafnar. Feykir rakst þar á mynd af Bessa á Blæ með einn vænan 44 kg þorsk – eiginlega skrímsli!
Feykir hafði samband við Baldur Magnússon hja Skagastrandarhöfn og spurði hvort svona golþorskar væru ekki frekar sjaldgæfir. „Það er óhætt að segja að þeir koma ekki á hverjum degi,“ sagði Baldur. Það var Bessi Gunnarsson á Blæ HU-77 sem náði þessum á handfæri og það mun víst hafa tekið dágóðan tíma að drösla honum innfyrir. Þorskinn veiddi hann í Gjánni, ca. 30 mílur frá Skagaströnd.
Baldur bætir við að þó svona skrímsli séu sjaldgæf þá hafi öðrum 44 kg þorski verið landað í byrjun mars. Það var Stefán Jósefsson og áhöfn á Ólafi Magnússyni HU-54 sem náði þeim golla í net. Staðsetning ókunn.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.