Selma lýsti hvernig tekist hefði verið á við smit í skóla í Skagafirði

Viðir, Þórólfur og Selma – ekki Alma – á fundinum í morgun. SKJÁSKOT AF RÚV
Viðir, Þórólfur og Selma – ekki Alma – á fundinum í morgun. SKJÁSKOT AF RÚV

Alls greindust 1.488 smit innanlands í gær og hefur aðeins einu sinni áður greinst fleiri smit á einum sólarhring frá því að Covid-faraldurinn blossaði upp fyrir tæpum tveimur árum. Nú eru um 6% þjóðarinnar ýmist í einangrun eða sóttkví en góðu fréttirnar eru þær að þrátt fyrir fjölmörg smit dregur úr fjölda þeirra sem þurfa að leggjast inn á sjúkrahús vegna veirunnar en fram kom í máli Þórólfs sóttvarnalæknis að hann vilji nú milda aðgerðir en þó án þess að taka áhættu. 

Í gær voru 33 á sjúkrahúsi og þrír á gjörgæslu en þetta eru töluvert lægri tölur en jafnvel bjartsýnustu spár gerðu ráð fyrir og er nú alvarlega farið að tala um að stytta tíma smitaðra í einangrun og sömuleiðis þeirra sem eru í sóttkví.

Samkvæmt tölfræði á Covid.is eru nú 70 manns í einangrun á Norðurlandi vestra og 85 í sóttkví sem er nokkur aukning frá því deginum áður þegar aðgerðateymi almannavarna á Norðurlandi vestra birti töflu varðandi smit innan svæðisins. Þar mátti sjá að tæplega 60% smitaðra voru til heimilis á Sauðárkróki eða 33 og sjö til viðbótar í póstnúmeri 551 en heildartala smitaðra á Norðurlandi vestra var 58 í gærmorgun. Á Skagaströnd voru níu smitaðir.

Selma Barðdal Reynisdóttir, fræðslustjóri í Skagafirði og fulltrúi í vöktunarteymi barnamálaráðherra um skólastarf og sóttvarnaráðstafanir, var með þeim Víði og Þórólfi á upplýsingafundi almannavarna í morgun. Í frétt á Rúv.is segir að Selma hafi lýst stöðunni í skólum sem væru að glíma við faraldurinn og gera sitt besta til að halda daglegri rútínu fyrir börnin eins og hægt væri. Þá lýsti hún því hvernig tekist hefði verið á við smit í skóla í Skagafirði, þar hefðu yngstu börnin smitast og verið send í sóttkví í stað smitgátar. „Þetta var auðvitað erfitt en þetta tók um viku.“ Selma sagði á fundinum að allt annað ástand ríkti í Reykjavík og fleiri stórum sveitarfélögum en þeim minni.

Í frétt Rúv.is er stiklað á stóru í málflutningi Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis en einnig er hægt er að kíkja á upptöku af fundinum hér >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir