Saumuðu 3000 poka á þremur árum
Haustið 2017 hófst mjög svo umhverfisvænt verkefni sem snérist um það að gera Blönduós að plastpokalausu samfélagi. Var hugmyndin sú að viðskiptavinir Kjörbúðarinnar á Blönduósi gætu fengið fjölnota poka lánaða og skilað þeim svo aftur í næstu búðarferð. Var það fyrir tilstilli Önnu Margrétar Valgeirsdóttur sem þetta verkefni byrjaði og nú, 3000 pokum og 500 klukkustundum síðar, ætlar hún formlega að hætta pokasaumaskapnum.
„Þetta hefur verið frábært ferðalag, ferðalag sem engin tekst á hendur einn. Ég er óendanlega þakklát öllum sem hjálpuðu mér að láta þennan draum minn rætast og ekki síður allri jákvæðninni sem ég hef fundið fyrir,“ segir Anna Margrét er hún rifjar upp ævintýrið á facebókarsíðu sinni. Fyrsti saumahittingurinn var í byrjun september 2017 og tveimur mánuðum seinna afhenti hópurinn fyrstu 400 poka. Í gærmorgun afhenti Anna Margrét síðustu 70 pokana frá sér.
Um 19 Blönduósingar hafa komið að þessu verkefni á einhvern hátt ásamt ótal erlendum listamönnum í gegnum Textílsetrið. „Sumir komu oft, einhverjir mjög oft en sumir bara einu sinni. Ég vil árétta að einu sinni er miklu betra en aldrei og allt vinnuframlag vel þegið,“ segir Anna Margrét en allir erlendu listamennirnir voru leystir út með einn poka að gjöf. Einnig hafi nemendur í Blönduskóla verið duglegir að sauma þegar þeir áttu lausa stund og voru til að mynda saumaðir 100 pokar í þemaviku hjá þeim.
Verkefnið fékk aðstöðu í Blönduskóla og aðgengi að saumavélum skólans. Hópurinn reyndi að hittast reglulega, eða um hálfsmánaðarlega, en oft var það þannig að þær sem unnu að verkefninu mættu þegar þær áttu lausa stund og nýttu þá tæknina til að láta vita af sér ef aðrar vildu slást í hópinn. Til að byrja með voru þær ekkert mjög snöggar að sauma hvern poka en með skipulagi og þjálfun telur hún að þær hafi náð að sauma einn poka á um 8-9 mínútum en sennilega nær 10-12. Samanlagt eru þetta því um 500 klukkustundir sem hafa farið í að sauma þessa 3000 poka, allt unnið í sjálfboðavinnu. Mikið að efniviðnum var gefins frá íbúum og einhverjar nýttu sér rýmingarsölu á efnum og keyptu sjálfar. Blönduósbær styrkti verkefnið einu sinni við tvinnakaup en þar sem Anna Margrét segist vonlaus í að sníkja hafi hún endað á því að kaupa mest af tvinnanum sjálf en viðurkennir að það hafi í raun komið sér á óvart hversu mikinn tvinna þurfti.
Anna Margrét er mjög þakklát fyrir hversu vel þetta verkefni hefur gengið. Hún vill þakka öllum þeim sem hafa á einhvern hátt komið að verkefninu, þó sérstaklega Þórdísi Erlu Björnsdóttur og Inese Elferte en þær saumuðu einfaldlega miklu meira en allir aðrir. Hún hefur þó ekki gleymt öllum hinum og er þakklát fyrir að hafa fengið að fara með þeim öllum í þetta skemmtilega ferðalag.
Anna Margrét segist nú formlega hætt að sauma poka en sé tilbúin til að hjálpa til og leiðbeina þeim sem hafa áhuga á að taka við verkefninu.
/SHV
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.