Sauðfjárverndin var í raun Skagfirðingurinn Jón Konráðsson - Kindasögur 2

Hjá bókaútgáfunni Sæmundi á Selfossi kom út fyrir jólin bókin Kindasögur, 2. bindi, eftir Aðalstein Eyþórsson og Guðjón Ragnar Jónasson. Fyrra bindi Kindasagna kom út á síðasta ári og hlaut afbragðsgóðar viðtökur landsmanna. Höfundarnir ákváðu því að bæta við öðru bindi með fleiri frásögnum af afrekum og uppátækjum íslenskra kinda.

Í nýju bókinni er víða leitað fanga eins og í þeirri fyrri. Greint er frá afreki forystusauðs í Þistilfirði, fjallað um afturgengnar kindur á Rauðasandi, í Vopnafirði og víðar, rifjaðar upp útvarpsauglýsingar Sauðfjárverndarinnar á Selfossi og sagt frá manninum sem stóð á bak við þær. Þá er stilkað á sögu sauðfjárhalds innan borgarmarka Reykjavíkur og sagt frá stormasömum samskiptum reykvískra fjáreigenda við garðeigendur og borgaryfirvöld. Rætt er um áhrif eldgosa á sauðfé, meðal annars greint frá afleiðingum öskufalls frá Eyjafjallajökli í Fljótshlíðinni, og rifjaðar upp sögur af strokukindum sem létu hvorki stórfljót né aðrar torfærur stöðva sig á leið sinni í forna heimahaga. Sagt er frá fjárskiptum og fjárböðun í Flóanum á síðustu öld og loks eru rifjuð upp kvæði íslenskra skálda þar sem kindur eru í aðalhlutverki. Með sögunum fljóta svo ýmsir fróðleiksmolar um líf og kjör fólks og fénaðar í landinu að fornu og nýju.

Í kaflanum „Sauðfjárverndin“ er greint frá sérstæðri starfsemi í þágu sauðkindarinnar sem hafði bækistöð á Selfossi – en þar kom reyndar Skagfirðingur við sögu. Upphaf kaflans er á þessa leið:

Þeir sem eru komnir svo til vits og ára að þeir muni áttunda áratug síðustu aldar geta ef til vill rifjað upp fyrir sér allsérstæðar tilkynningar sem gjarnan voru lesnar í hádegisútvarpinu á þeim árum. Þetta voru skilaboð sem fólu í sér ýmiss konar leiðbeiningar og áskoranir um hirðingu og meðferð sauðfjár. Hér eru nokkur dæmi:
Bændur.
Hugsið vel um ærnar um sauðburðinn.

Ökumenn. Bílstjórar.
Varúð á vegum. Sauðkindin prýðir landið. Sauðféð hefur fætt og klætt þjóðina alla hennar daga. Akið varlega framhjá sauðfénu.

Smalamenn. Íslendingar.
Hundbeitið ekki kindur. Sýnið sauðfé ávallt nærgætni í allri umgengni. Setjið ykkur í spor kindarinnar. Sauðkindin er fíngerð og viðkvæm. 

Þá var oft vikið að nauðsyn þess að útrýma tófu og öðrum vargi og fyrir kom að þetta væru almennari hvatningarorð um eitt og annað sem til framfara horfði fyrir land og þjóð:

Íslendingar.
Minkur, tófa og vargfugl hafa útrýmt söngfugli og vatnafiski. Því ber að útrýma þessum ófögnuði. Fleira mætti nefna.

Sauðfjárræktarmenn – Íslendingar.
Fornkappar og fjöldi fólks lifði mestmegnis á sauðfjárafurðum og var ekki mergsvikið í þolraunum. Burt með sykurinn.

Sendandi þessara boða var „Sauðfjárverndin“ eins og skýrlega kom fram í lok hverrar orðsendingar. Flestir sem á hlýddu hafa vafalítið haldið að tilkynningarnar væru runnar undan rifjum hins opinbera – „Sauðfjárverndin“ hljómar ekki ósvipað og Gjaldheimtan eða Vegagerðin. Einhverjir þéttbýlisbúar hafa sjálfsagt fussað yfir því að hér væri landbúnaðarmafían að sóa skattpeningum almennings með því að setja ríkiskontór undir einhvern framsóknarhjassann.

Á hinn bóginn er líklegt að sveitamenn út um land hafi stundum orðið hvumsa við að útvarpið væri að segja þeim fyrir verkum um hluti sem þeir þóttust bera fullt skynbragð á og vel það. En í sveitum Árnessýslu, einkum í Flóanum, voru þó margir sem vissu betur hvernig á Sauðfjárverndinni stóð. Hún var nefnilega hvorki stofnun né félag. Sauðfjárverndin var bara einn gamall maður á Selfossi sem varði ellilaununum sínum í þessar útvarpstilkynningar. Hann hét Jón Konráðsson og hann var ekki einu sinni framsóknarmaður.

Vildi verða bóndi
Jón Konráðsson var Skagfirðingur, fæddur árið 1893 og ólst upp á búi foreldra  sinna á Syðra-Vatni í Lýtingsstaðahreppi, einn af níu systkinum. Hann var bæklaður frá fæðingu, þannig að vinstri fóturinn var styttri en sá hægri, en framan af ævinni tókst honum þó að láta á engu bera því hann var kvikur í hreyfingum og harður af sér. Jón var gefinn fyrir sauðfé og fjármennsku og var snemma farinn að hirða féð heima á Vatni upp á sitt eindæmi en um fermingu fékk hann heymæði og upp úr því svæsna lungnabólgu svo honum var ekki hugað líf – en hjarnaði þó við að lokum. Hann var þá sendur til föðurbróður síns í Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi til að hvíla sig og ná heilsu.

Mynd: Eykon og hrúturinn feigi í Slátursamlaginu á Sauðárkróki. Mynd úr Morgunblaðinu 8. október 1976.

Árið 1912 eða þar um bil hóf Jón búfræðinám við Bændaskólann á Hólum en af einhverjum orsökum hvarf hann frá því eftir fyrsta veturinn. Þess í stað leitaði hann aftur vestur á Snæfellsnes og  árið 1916 gerðist hann fjárbóndi á Hofsstöðum í Helgafellssveit. Búskaparárin urðu þó ekki mörg. Tímarnir voru erfiðir, ofan á rysjótt tíðarfar lögðust vöruskortur og dýrtíð af völdum fyrri heimsstyrjaldar og að stríðinu loknu skall á kreppa með hríðfallandi afurðaverði. Jón Konráðsson flosnaði upp frá búskapnum á Hofsstöðum og árið 1923 var hann orðinn farkennari í Eyjahreppi á Snæfellsnesi. „Ég hefði nú viljað verða bóndi, en það æxlaðist nú samt svo, að ég fór á þennan flæking,“ segir hann í viðtali í Morgunblaðinu árið 1981 og bætir svo við: „Kannski það hafi vantað í mig þrjóskuna.“

Í kaflanum er farsæll kennsluferill Jóns rakinn en hann settist um síðir að á Selfossi og þar varð Sauðfjárverndin til en segja má að Jón hafi helgað sauðkindinni síðustu áratugi ævinnar. Í lok kaflans er svo drepið á náfrænda Jóns sem einnig hafði afskipti af sauðfjármálum svo eftir var tekið:

Því er svo við að bæta að Jón Konráðsson var ekki einn um það meðal ættingja sinna að láta til sín taka í sauðfjármálum á opinberum vettvangi. Það vakti mikla athygli haustið 1976 þegar systursonur hans, Eyjólfur Konráð Jónsson alþingismaður, lét taka af  sér mynd með golsóttum lambhrút sem hann sagðist myndu skjóta með eigin hendi ef ekki fengist hagstæð niðurstaða í deilu um sláturleyfi í Skagafirði. Sláturleyfið fékkst um síðir og ekki kom til þess að Eyjólfur skyti hrútinn – en myndin er enn í minnum höfð.

Áður birst í 47. tbl. Feykis 2020

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir