Sameiningarkosningum Húna- og Skagabyggðar lýkur á laugardag
Kosningum um sameiningu Húnabyggðar og Skagabyggðar, sem hófust 8. júní síðastliðinn, lýkur nú laugardaginn 22. júní. Samkvæmt upplýsingum Feykis er kjörsókn 20% í Húnabyggð en í Skagabyggð er hún 45%. Þetta miðast við stöðuna í dag, fimmtudaginn 20. júní, að sögn Katrínar Benediktsdóttur, formanns kjörstjórnar.
„Einfaldur meirihluti atkvæða samþykkir eða fellir tillöguna,“ svarar hún þegar Feykir spyr hvort meirihluti dugi til eða hvort einhverja lágmarks kjörsókn þurfi til.
Kosningarétt í þessum kosningum hafa íslenskir og norrænir ríkisborgarar sem náð hafa 16 ára aldri fyrir lok atkvæðagreiðslunnar þann 22. júní 2024 og eru með skráð lögheimili í öðru hvoru sveitarfélaganna þann 16. maí 2024. Erlendir ríkisborgarar sem uppfylla sömu skilyrði og íslenskir og sem átt hafa lögheimili hér á landi í þrjú ár samfellt fyrir upphaf kosningar, eiga einnig kosningarétt.
Kosningarnar fara fram í hvoru sveitarfélagi fyrir sig og kjósendur greiða atkvæði í því sveitarfélagi sem þeir eiga lögheimili.
Kjörstaðir
Í Skagabyggð er kosið í Skagabúð. Opnunartími á laugardaginn er klukkan 12-18.
Í Húnabyggð er kosið á bæjarskrifstofum Húnabyggðar að Hnjúkabyggð 33, og í Íþróttamiðstöðinni að Melabraut 2 á Blönduósi. Opnunartími á bæjarskrifstofu er klukkan 9-15 virka daga og opnunartími í íþróttamiðstöð á laugardaginn er klukkan 10-18.
Sjái íbúi sér ekki fært að mæta á kjörstað á kjörtímabilinu er hægt að óska eftir því að greiða atkvæði sitt með póstkosningu. Slík beiðni skal berast í tölvupósti eða í síma og skal taka fram hvort kjörgögn eigi að berast til viðkomandi aðila í almennum bréfpósti eða í tölvupósti. Sé kosið í póstkosningu ber íbúi ábyrgð á að koma kjörseðli á kjörstað fyrir lokun kjörstaða, 22. júní 2024.
Eftir að kjörfundi lýkur tekur við talning atkvæða sem fer fram á kjörstöðum beggja sveitarfélaga, fyrir opnum dyrum svo að almenningi er frjálst að fylgjast með eftir því sem húsrúm leyfir.
Niðurstöður kosninganna verða birtar á heimasíðum sveitarfélaganna að lokinni talningu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.