Ristarhlið á Þjóðvegi 1 verða ekki fjarlægð

Ristarhlið og búfjárveikivarnagirðing við austurós Héraðsvatna í Skagafirði. Eins og sést vantar talsvert upp á að hér sé fjárheld girðing en það stendur allt til bóta, að sögn Sigurborgar Daðadóttur, yfirdýralæknis. Mynd tekin í morgun. Mynd: PF.
Ristarhlið og búfjárveikivarnagirðing við austurós Héraðsvatna í Skagafirði. Eins og sést vantar talsvert upp á að hér sé fjárheld girðing en það stendur allt til bóta, að sögn Sigurborgar Daðadóttur, yfirdýralæknis. Mynd tekin í morgun. Mynd: PF.

Þau ristarhlið sem Vegagerðin hugðist fjarlægja af Þjóðvegi 1 í Skagafirði og Húnavatnssýslum munu áfram þjóna hlutverki sínu í búfjárveikivörnum landsins. Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir, sagði í samtali við Feyki að um misskilning hafi verið að ræða er starfsmaður MAST heimilaði Vegagerðinni að fjarlægja umrædd ristarhlið. Farið verði í það að fjármagna ný hlið svo hægt verði að uppfylla umferðaröryggi og sjúkdómavarnir.

Sigurborg segir að málið eigi dálítinn aðdraganda en Vegagerðin telur, og hafi góð rök fyrir því, að endurnýja þurfi þessi ristarhlið, eins og gert hefur verið í gegnum árin en það kosti peninga sem ekki liggja fyrir.

„Þeir viðhaldspeningar, sem fara í varnargirðingar, hafa ekki verið settir í þessi ristarhlið enda hefur í gegnum tíðina Vegagerðin endurnýjað þessi ristarhlið án þess að við höfum komið að því. En það á samt sem áður ekki að hindra það að þetta sé gert. Þegar Vegagerðin fer að tala um það að fara að fjarlægja þessi hlið þá leggjumst við eindregið gegn því fyrir einu eða tveimur árum síðan með formlegum hætti. Síðan er málið tekið upp aftur núna í vor, og þá er þriðja hliðinu reyndar bætt við sem er við Héraðsvötn, og Vegagerðin setur sig í samband við starfsmann sem sér um peningamálin, greiðslu reikninga. Af einhverjum ástæðum skrifar viðkomandi póst þar sem kemur fram að Vegagerðinni sé heimilað að gera þetta á eigin kostnað, sem er alls ekki álit okkar fagfólksins á því. Það varð þarna einhver misskilningur og ég get ekki annað en beðist afsökunar á því,“ segir Sigurborg.

Hún fullyrðir að hliðin verði ekki fjarlægð og bætir við að fjórða ristarhliðið sem staðsett er við austurós Héraðsvatna, og til stóð að fjarlægja líka, verði endurnýjað og girðing sem að því liggur verði bætt en svo virðist sem byrjað hafi verið á því að fjarlægja hana.

„Þannig að það stendur ekki til að fjarlægja nein ristarhlið. Við viljum hafa þetta fjárhelt og munum funda með Vegagerðinni um þessi mál og hvernig best sé að standa að þessu og að fjármunir séu ekki að standa í vegi fyrir umferðaröryggi og sjúkdómavörnum.“

Hér að neðan má sjá hvernig varnarlínan leit út í morgun.

 

Búfjárveikivarnarhlið við austurós Héraðsvatna í Skagafirði

Búfjárveikivarnarhlið við austurós Héraðsvatna í Skagafirði. Ekki alveg að gera sig.

Posted by Feykir on Þriðjudagur, 25. ágúst 2020

 

Tengdar fréttir:

Krefjast þess að varnarlínum búfjárveikivarna verði við haldið

Vegagerðin ætlar að rjúfa varnalínu búfjárveikivarna

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir