Reiknar með að flest fyrirtækin nái að þreyja þorrann
Í frétt á rúv.is segir frá því að framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, Arnheiður Jóhannesdóttir, telji að meirihluti fyrirtækja í ferðaþjónustu á Norðurlandi muni lifa Covid-faraldurinn af. Fleiri nái að þreyja þorrann en reiknað var með. Þá sé ferðaþjónustan á landsbyggðinni almennt með litlar skuldbindingar fyrir veturinn og ferðaþjónustuaðilar vanir að þurfa að bíða af sér tekjulitla mánuði.
Hún segir að almennt hafi fyrirtæki í ferðaþjónustu á Norðurlandi skorið niður alla sína starfsemi og bíði af sér það ástand sem nú ríkir - enda séu nánast engir ferðamenn til að sinna. Í ljós hafi komið að færri fyrirtæki muni gefast upp en reiknað var með og stærsti hlutinn standi þetta af sér. Auðvitað komi í ljós á næstu mánuðum hve mörg þeirra þoli þetta langt tímabil í algerri stöðvun. „Það tekur svo auðvitað tíma að koma sér upp í eðlilega starfsemi aftur og byggja fyrirtækið aftur upp. Vegna þess að það auðvitað þurrkast upp fjármagn innan fyrirtækjanna í þessu ástandi.“
Þau sem ekki lifi af séu helst fyrirtæki sem þegar voru illa stæð fjárhagslega, og afþreyingarfyrirtæki sérhæfð í þjónustu fyrir erlenda ferðamenn. Gisti- og veitingastaðir hafi náð þokkalegum tekjum í sumar sem komi þeim til góða núna. „Ég held að við séum bara að sjá ágæta blöndu fyrirtækja komast út úr þessu,“ segir Arnheiður í samtali við rúv.is.
Hún segir það hafa hjálpað fyrirtækjunum hve þau eru vön árstíðarsveiflunni og litlar skuldbindingar séu almennt fyrir veturinn. „Þannig að menn eru vanir því að vera með mikinn sveigjanleika í framboði og þjónustu og geta skrúfað fyrir veturinn, ef má segja svo, og beðið af sé þrönga mánuði.“ Nú verði ferðaþjónustan engu að síður að fá gott sumar til að ná fjármagni inn í fyrirtækin aftur. Ekki sé hægt að lifa af mörg svona ár, með 40-80 prósenta tekjufall.
Sjá nánar á rúv.is >
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.