Rannveig Sigrún söng til sigurs
Óhætt er að segja að áhorfendur hafi skemmt sér vel á skemmtilegri Söngkeppni NFNV sem haldin var á sal skólans í gærkvöldi. Keppendur voru tólf og fluttu þeir tíu ansi ólík lög. Keppninni var streymt beint en vegna tæknilegra örðugleika tafðist keppnin um 30 mínútur. Það var Rannveig Sigrún Stefánsdóttir sem stóð að lokum uppi sem sigurvegari.
Hún söng fallegt lag, She Used To Be Mine, sem hin ágæta Sara Bareilles samdi fyrir söngleikinn um gengilbeinuna (Waitress) sem byggður var á samnefndri kvikmynd. Rannveig verður því fulltrúi FNV þegar Söngkeppni framhaldsskólanna fer fram – væntanlega og vonandi í vor.
Í öðru sæti í keppninni voru Íris Helga Aradóttir og Óskar Aron Stefánsson með lagið What are Words eftir Chris Medina. Í þriðja sæti var Jóhann Smári Reynisson með fallegan flutning á laginu On My Own eftir Frances Rufelle.
Kynnir með opna buxnaklauf
Þau Eysteinn Guðbrandsson og Herdís Eir Sveinsdóttir voru kynnar á keppninni og stóðu sig með stakri prýði. Eysteinn varð fyrir því óláni að mæta í eitt skiptð á svið með opna klauf en var heppinn – mamma hans hringdi í hann og lét hann vita.
Á meðan dómnefndin réð ráðum sínum flutti Ása Svanhildur Ægisdóttir tvö lög, Nature Boy úr myndinni Moulan Rouge og nýlegt lag Miley Cyrus, Angel Like Me, og gerði það frábærlega. Þá brá Óskar Aron sér í gerfi Sunnu og flutti með tilþrifum lagið Tvær úr Tungunum með stæl.
Guðbrandur Ægir Guðbrandsson sá um að stjórna ljósum og Sigfús Arnar Benediktsson stjórnaði hljóðinu. Árni Gunnarsson og nemendur í kvikmyndagerð í FNV sáu um upptöku og streymi. Keppnin var afar ánægjuleg og gestir eins margir og sóttvarnareglur leyfa en einnig var hægt að fylgjast með heima í gegnum streymi.
Hægt er að kíkja á keppnina á YouTube með því að smella hér >
- - - - - -
Heimild: Facebook-síða FNV og þar má sjá fleiri myndir frá keppninni.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.