Nýtt umhverfismat fyrir Blöndulínu 3
Landsnet hefur sent Skipulagsstofnunar til ákvörðunar tillögu að áætlun um mat á umhverfisáhrifum vegna framkvæmda við Blöndulínu 3, háspennulinu frá Blönduvirkjun til Akureyrar sem liggur um 5 sveitarfélög; Húnavatnshrepp, Sveitarfélagið Skagafjörð, Akrahrepp, Hörgársveit og Akureyri.
Fyrir liggur eldra mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar sem lauk með áliti Skipulagsstofnunar í janúar 2013. Eftir að því lauk hafa komið fram dómar um ógildingar eignarnáms og framkvæmdaleyfa vegna fyrirhugaðra framkvæmda Landsnets á Reykjanesi. Einnig hefur verið lögð fram stefnumörkun stjórnvalda um flutningskerfi raforku, auk þess sem frekari greiningar liggja fyrir á því hversu langa jarðstrengskafla er hægt að leggja í jörðu í meginflutningskerfinu. Þar með liggja nú fyrir aðrar forsendur til að byggja á við undirbúning verkefna í meginflutningskerfinu, sem felast meðal annars í auknu samráði og víðtækari valkostagreiningu sem grundvallast m.a af framangreindri skýrari stefnumörkun stjórnvalda og tæknilegum greiningum. Því hefur Landsnet ákveðið að gera nýtt umhverfismat fyrir Blöndulínu 3.
Tillöguna, sem liggur frammi til kynningar hjá Skipulagsstofnun, má einnig nálgast á vefsíðu stofnunarinnar www.skipulag.is . Allir geta kynnt sér tillöguna og lagt fram athugasemdir. Skriflegar ahugasemdir þurfa að berast bréfleiðis eða með tölvupósti á skipulag@skipulag.is eigi síðar en 9. júlí næstkomandi.
/Fréttatilkynning
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.