Nám er tækifæri
Kófið hefur mikil áhrif á skólastarf í landinu. Á Bifröst hefur skólalífið verið í nokkuð föstum skorðum enda byggir skólinn á fjarnámi og allt frá fyrsta degi má segja að hann hafi verið Kóvíd klár. Þó þurfti að fresta námskeiðinu Mætti kvenna sem notið hefur mikilla vinsælda síðustu ár.
Í Mætti kvenna er mikið er lagt upp úr kröftugum vinnuhelgum og því var ákveðið að fresta námskeiðinu fram yfir áramót. Vinnuhelgar eru í upphafi og um miðbik námsins en því lýkur á vormánuðum með formlegri útskrift.
Um er að ræða ellefu vikna nám fyrir konur sem vilja öðlast þekkingu og færni í rekstri fyrirtækja og fer námið að stórum hluta fram gegnum netið. Námskeiðin sem kennd verða í fjarnámi eru upplýsingatækni, bókhald, fjármál, markaðs- og sölutækni og stofnun fyrirtækja og rekstrarform. Ekki eru gerðar sérstakar forkröfur til þeirra sem taka námskeiðið. Næsta námskeið hefst því þann 25. janúar en því lýkur í byrjun maí.
Verkefnastjóri námsins er Sirrý Arnardóttir sem er að góðu kunn fyrir kennslu sína á Bifröst, fjölmiðlastörf og bækur sínar. Máttur kvenna er nú skipulagt með nýju sniði. Nýnæmið í náminu ,,Máttur kvenna – rekstur fyrirtækja” felst fyrst og fremst í því að nú verður enn meiri áhersla lögð á hagnýtingu námsins, auk þess sem vinsæl námskeið eins og framsækni og örugg tjáning með Sirrý fá aukið vægi en kennslan hjá Sirrý fer fram á vinnuhelgunum. Aðspurð segist Sirrý vera full tilhlökkunar að hitta konur á ólíkum aldri víðs vegar af landinu á vinnuhelgum á Bifröst. Margar konur hafa myndað sterk félagslegt tengslanet á námskeiðinu, sumar þeirra eru þegar með eigin fyrirtækjarekstur þegar þær hefja námið á meðan aðrar luma á góðum viðskiptahugmyndum.
Á komandi vormisseri verður í fyrsta sinn boðið upp á nám í háskólagátt á ensku á Bifröst. Nemendum gefst kostur á að stunda námið annað hvort í fjarnámi eða staðnámi en á Bifröst er hægt að leigja gott húsnæði á hagstæðum kjörum.
Stór hluti þess fólks sem hefur misst vinnuna undanfarna mánuði hefur annað móðurmál en íslensku og telur sér ekki fært að stunda nám á íslensku. Til þess að koma til móts við þarfir þessa hóps var ákveðið að spegla námið í háskólagáttinni yfir á ensku og ná þannig til fólks með ýmis móðurmál og betri tungumálagrunn í ensku en íslensku.
Námið í háskólagátt á ensku er sambærilegt náminu á íslensku að öðru leyti en því að kennt er á ensku, í stað hefðbundinna íslenskuáfanga taka nemendur áfanga í íslensku sem öðru máli og í stað dönskuáfanga geta nemendur valið um að bæta við sig áfanga í ensku- og/eða áfanga í íslensku sem öðru máli.
Nemendur geta lokið náminu á rúmlega sex mánuðum eða á tveimur önnum en námið er sniðið að atvinnuátakinu Nám er tækifæri þannig að nemendur geta fengið greitt úr atvinnuleysistryggingasjóði meðan þeir stunda námið.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.