MUSHROOM er málið hjá Sveppa - Ungur athafnamaður hannar og framleiðir fatalínu

Sveppi fatahönnuður. Aðsendar myndir
Sveppi fatahönnuður. Aðsendar myndir

MUSHROOM er fatamerki sem hannað er af Sverri Má Helgasyni 15 ára nemanda við Norðlingaskóla. Sverrir Már er kallaður Sveppi og nafnið á fatamerkinu MUSHROOM er komið til vegna gælunafns hans. Það sem gerir þetta verkefni áhugavert fyrir Feyki er að Sverrir á ættir sínar að rekja norður yfir heiðar en móðir hans, Valgerður Karlotta Sverrisdóttir, er brottfluttur Króksari dóttir Sverris Valla og Lottu, Karlottu Sigurðardóttur sem uppruna sinn rekur á Blönduós. Feykir forvitnaðist örlítið um Sverri og fatalínuna sem vakið hefur töluverða athygli.

Sverrir Már, eða Sveppi, er nemandi við 10. bekk í Norðlingaskóla og fékk það verkefni, fyrst í 8. bekk, að hanna merki og gerði hann þá sveppi með kórónu. Svo aftur í 10. bekk átti að hanna meira og hélt hann þá áfram með fyrri hönnun og skapaði merkið MUSHROOM. Í byrjun október nefndi hann við móður sína að hann langaði til að hanna sitt eigið fatamerki og Valgerður tók soninn á orðinu og þau fóru af stað í frekari hönnun. Var síðan leitað til fyrirtækisins Margt Smátt eftir samstarfi varðandi prentun á fatnaðinum. Í kjölfarið lagði Sveppi inn umsókn hjá Hugverkastofu um að fá einkaleyfi á vörumerkinu sínu. Um miðjan nóvember byrjaði hann svo að selja fyrstu flíkurnar og hefur gengið vonum framar.

„MUSHROOM fatalínan er hugmynd sem ég fékk þegar ég var að vinna verkefni í skólanum. Ég sel peysur, boli og húfur á börn og fullorðna,“ segir Sveppi sem fyrst fékk hugmyndina að þessu verkefni í september á síðasta ári. „Ég var að gera verkefni í skólanum þar sem við þurftum að hanna merki og þar hannaði ég MUSHROOM merkið. Stuttu eftir það sagði ég við mömmu að ég vildi hanna fatalínu. Þetta byrjaði með hönnun á merkinu, svo fann ég fyrirtæki sem var bæði með föt og gat einnig merkt fötin fyrir mig og þá byrjaði salan. Það hefur gengið mjög vel að selja vörunar.“

Sveppi segist ekki endilega hafa stefnt á fatahönnun áður eða aðra sköpun yfirleitt en áhuginn kviknaði þegar hann bjó til merkið sjálft. Áhuginn jókst svo enn meira þegar það byrjaði að ganga vel í sölu og markaðsmálum.

Hvaðan færðu hugmyndirnar?

„Ég hef alltaf verið kallaður Sveppi og þaðan kom hugmyndin að skíra fatalínuna MUSHROOM. Vonandi mun þetta allt ganga vel hjá mér og ég muni halda áfram að selja vörur. Kannski í framtíðinni mun ég koma með eitthvað meira og stærra,“ segir þessi ungi framtaksami hönnuður.

Feykir mælir hiklaust með því að lesendur kynni sér og kaupi framleiðsluvörur Sveppa, MUSHROOM, en þær eru hægt að skoða á Instagramsíðu verkefnisins @mushroom_clothes og Facebook síðunni MUSHROOM-fatalína.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir