Lagning ljósleiðara milli Hveravalla og Blöndudals

Sigurður Ingi á fjöllum. Mynd: stjornarradid.is
Sigurður Ingi á fjöllum. Mynd: stjornarradid.is

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, staðfesti 12. júní síðastliðinn samning við Neyðarlínuna um lagningu ljósleiðara milli Hveravalla og Blöndudals. Að því verkefni loknu kemst á önnur ljósleiðaratenging milli Suðurlands og Norðurlands um hálendið, sem bætir bæði öryggi og afkastagetu fjarskipta á leið strengsins sem og grunnkerfis fjarskipta hér á landi. Sagt er frá þessu á vef Stjórnarráðsins.

Þetta verkefni kemur í kjölfar lagningar ljósleiðara, milli Suðurlands og Hveravalla með útstigi til Kerlingafjalla, samhliða rafstreng sem leysir af hólmi dísilvélar sem rekstraraðilar á svæðinu hafa hingað til reitt sig á. Verklok voru kynnt í Myrkholti í Bláskógabyggð í vikunni þar sem Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra ávarpaði ráðstefnuna ásamt Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Sigurður Ingi sagði: „Mikilvægt er að tryggja örugg fjarskipti allt árið um kring, á fjölförnum leiðum um hálendi Íslands. Stórt skref var stigið þegar lokið var við að leggja ljósleiðara milli Bláfellsháls og Hveravalla með útstigi til Kerlingarfjalla. Með ljósleiðara milli Hveravalla og Blöndudals verður komið á samfellt fjarskiptasamsamband um Kjöl. Þessi nýi ljósleiðarastrengur hefur þegar umbylt bæði aðgengi og öryggi fjarskipta á þessari leið. Þá hefur risastórt skref verið stigið varðandi endurnýjanlega orkugjafa á Kili og þar með heyra olíuflutningar til hálendismiðstöðva á svæðinu sögunni til.“

Heildarverkefnið er uppfærsla bæði fjarskipta-og raforkuinnviða með framlagi og aðkomu margra aðila og er afbragðs dæmi um vel heppnaða samvinnuleið í innviðamálum. Verkefnið er samvinnuverkefni Bláskógabyggðar, Hrunamannahrepps, Húnavatnshrepps auk Neyðarlínunnar, Fjarskiptasjóðs, Rarik og ferðaþjónustufyrirtækja í Árbúðum, Kerlingafjöllum og Hveravöllum.

Samningurinn sem ráðherra staðfesti er á grundvelli fjárfestingaátaks ríkisstjórnarinnar og hljóðar upp á 40 m.kr. en áður hafði Fjarskiptasjóður f.h. samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins samþykkt á fundi 17. maí 2019 að styrkja þetta verkefni um 35 m.kr. með hliðsjón af ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að styrkja fjarskipta- og raforkuinnviði á Kili.

/SHV

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir