Kyndilmessa boðar ekki gott - Veðurspá Veðurklúbbsins á Dalbæ fyrir febrúar

Í gær klukkan 14 mættu átta til fundar í Veðurklúbbi Dalbæjar á Dalvík til að spá fyrir veðri febrúarmánaðar. Samkvæmt skeyti spámanna voru fundarmenn almennt nokkuð sáttir við síðustu spá þó svo það hafi orðið heldur meira úr veðri en gert var ráð fyrir. Tunglið sem nú er ríkjandi kviknaði 13. janúar í norðaustri en næsta tungl kviknar í vestri þann 11. febrúar og nefnist það Góu-tungl.

„Það er útlit fyrir kuldatíð en stillur. Miðað við Kyndilmessu sem hófst í dag [í gær 2. febrúar]segja gamlar frásagnir að það boði ekki gott og að það muni snjóa mikið en við viljum vera bjartsýn og vona að það verði ekki mikið fannfergi. Áttir verða áfram norðan- og norðvestlægar,“ segja klúbbsmeðlimir sem létu ekki þar við sitja í veðurfræðinni því áfram var spjallað og spekúlerað þar til fundi lauk kl 14:30. Senda spámenn sólarkveðjur til lesenda Feykis með tilheyrandi veðurvísu:

Febrúar á fannir
þá læðist geislinn lágt.
Í mars þá blæs oft biturt
en birtir smátt og smátt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir