Krefjast þess að varnarlínum búfjárveikivarna verði við haldið
Hreppsnefnd og fjallskilanefnd Akrahrepps boðuðu sauðfjárbændur og aðra hagsmunaaðila á svæðinu á fund þann 20. ágúst 2020 til þess að ræða ýmis mál, þ.á.m. þá fyrirhuguðu aðgerð Vegagerðarinnar að fjarlægja ristahlið sem þjónar tilgangi í varnarlínu búfjárveikivarna milli Tröllaskagahólfs og Húna- og Skagahólfs. Það er á ábyrgð MAST að viðhalda varnargirðingum sem fjármagnað er af Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, (ANR) en svo virðist sem litlu fjármagni sé ætlað í málaflokkinn nú sem skýrir þá krísu sem komin er upp. Vegagerðin neitar að bera kostnað af viðhaldi rimlahliðsins og hótar því að fjarlægja það.
Akrahreppur tilheyrir sóttvarnarhólfi Tröllaskagahólfs, sem hefur verið ósýkt með tilliti til riðuveiki í rúm 20 ár og er að sögn Hrefnu Jóhannesdóttur, oddvita, mikið hagsmunamál fyrir bændur að svo verði áfram.
„Riðuveiki hefur komið upp ítrekað undanfarin ár í Húna- og Skagahólfi og hafa mörg tilfellanna verið í næsta nágrenni við Varmahlíð, sem segja má að sé þekkt riðusvæði. Sem dæmi má nefna nýlegt tilfelli í Vallanesi, sem á land að Héraðsvatnabrú á Þjóðvegi 1. Því þarf að tryggja að fé eigi ekki greiða leið milli hólfanna. Hreppsnefnd Akrahrepps, fjallskilanefnd Akrahrepps og sauðfjárbændur í Akrahreppi mótmæla því harðlega að ristarhlið á þjóðvegi 1 við Héraðsvatnabrú verði fjarlægt eins og Vegagerðin áformar að gera nú á næstunni,“ segir Hrefna. Þjóðvegurinn liggur um landbúnaðarhérað og segir Hrefna það alvarlegt mál ef stofnanir ríkisins ætli að brjóta lög um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim með því að rjúfa búfjárveikivarnarlínu milli Tröllaskagahólfs og þekkts riðusvæðið. „Og þar að auki ganga þvert á vilja hagsmunaaðila á svæðinu sem eiga mikið undir því að Tröllaskagahólf haldist riðulaust.“
Á fyrrnefndum fundi var eftirfarandi bókun lögð fram:
„Hreppsnefnd Akrahrepps, fjallskilanefnd og sauðfjárbændur í Akrahreppi krefjast þess að varnarlínum búfjárveikivarna verði haldið við samkvæmt lögum þar um. Fundurinn skorar á hlutaðeigandi yfirvöld (Alþingi/ríki/ANR) að tryggja nægt fjármagn svo MAST og Vegagerðin geti sinnt sínu hlutverki í viðhaldi á varnarlínunni, þ.m.t. ristarhliði á Þjóðvegi 1 við Héraðsvatnabrú, þannig að hvorki fólki né skepnum stafi slysa- eða sýkingarhætta af.
Hreppsnefnd Akrahrepps mun óska eftir fundi með forráðamönnum MAST og Vegagerðarinnar hið fyrsta.“
Tengd frétt: Vegagerðin ætlar að rjúfa varnalínu búfjárveikivarna
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.