Jörð skelfur víða um norðanvert landið
Í dag klukkan 15:05 varð skjálfti af stærðinni 5.6 um 20 km NA af Siglufirði. Margir eftirskjálftar hafa fylgt í kjölfarið, sá stærsti var 4,1 og reið hann yfir um klukkan 16:40. Skjálftinn fannst víða um Norðurland, meðal annars á Siglufirði, Akureyri, Hrísey, Dalvík og Húsavík að því er segir í frétt á mbl.is. Þá er Feyki kunnugt um að skjálftinn fannst víða í Skagafirði og allt vestur á Strandir.
Á vef Veðurstofunnar kemur fram að jarðskjálftahrina hefur staðið yfir á Tjörnesbrotabeltinu, frá því um hádegi í gær. Eiga skjálftarnir upptök sín í hafinu, um 20 km NA af Siglufirði. Skjálftinn sem varð um þrjúleytið í dag var stærsti skjálfti síðan 2012. „Hann var það stór að það er alls ekki óeðlilegt að hann finnst víða. Það hefur ekki verið svo stór skjálfti þarna síðan 2012. Við höfum fengið tilkynningar frá Húsavík, Skagafirði og víðar,“ segir Sigríður Magnea Óskarsdóttir, náttúruvárfræðingur Veðurstofu Íslands í samtali við mbl.is. „Þetta er vel þekkt jarðskjálftasvæði og það hafa orðið stærri skjálftar þarna áður fyrr. Þetta eru brotaskjálftar, jarðskorpuhreyfingar, sem valda þessu og eru ekki óeðlilegar.“
Á Facebooksíðu Veðurstofunnar segir að skjálftinn hafi orsakað grjóthrun í Mánárskriðum og Hafnarhyrnu fyrir ofan varnargarðinn á Siglufirði. Fólk er beðið að hafa varan á undir bröttum hlíðum á Tröllaskaga.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.