Jómfrúrræða Eyjólfs Ármannssonar á Alþingi
Fyrr í mánuðinum flutti Eyjólfur Ármannsson jómfrúrræðu sína á Alþingi í tengslum við fjárlagafrumvarpið sem nú er nýsamþykkt. Eyjólfur er sjötti þingmaður Norðvesturkjördæmis fyrir Flokk fólksins. Hann er 2. varaformaður fjárlaganefndar og 1. varaformaður allsherjar- og menntmálanefndar.
„Virðulegi forseti.
Stundum er sagt að steinarnir tali. Þannig hófst eitt sinn ræða til stuðnings forsetaframbjóðanda í kosningabaráttu fyrir kjör annars forseta lýðveldisins.
Sá er þetta talar var kjörinn til hins háa Alþingis sem þingmaður fyrir Flokk fólksins í Norðvesturkjördæmi fyrir rúmum tveimur mánuðum. Eftir ítarlega rannsókn á framkvæmd kosninganna komst Alþingi að þeirri niðurstöðu að annmarkar á talningu atkvæða hefðu ekki haft áhrif úrslit kosninganna.
Ætlun þess sem hér talar var að halda jómfrúrræðu fulla af hugljómun nýliðans um mikilvægi lýðræðis og ágæti íslensks samfélags. Spurningin er hins vegar hvort sá er hér talar sé að flytja jómfrúrræðu sína eða ekki, eftir að hafa tekið til máls í andsvörum í umræðum um kosningar í Norðvesturkjördæmi og í dag um fjárlagafrumvarpið.
Stundum er sagt að staðreyndir tali. Sú varð niðurstaðan þegar Alþingi staðfesti kjörbréf þingmanna í Norðvesturkjördæmi og þar á meðal þess sem hér talar.
Sá er hóf ræðu sína með orðunum „stundum er sagt að steinarnir tali“, til stuðnings forsetaframbjóðandanum sem kosinn var annar forseti lýðveldisins, var afi minn, bóndi í Lokinhamradal við Arnarfjörð á Vestfjörðum. Forsetaframbjóðandinn var Ásgeir Ásgeirsson, einn farsælasti forseti lýðveldisins.
Þegar fjárlagafrumvarpið er skoðað koma upp í hugann orðin: Stundum er sagt að tölurnar tali. Það má svo sannarlega segja um fjárlagafrumvarp það sem liggur fyrir í kvöld.
Fjárlagafrumvarpið sem liggur fyrir ber þess merki að í því felst ekki sú forysta sem er svo brýnt að ríkisvaldið sýni á þessum mikilvægu tímum. Ekkert er að finna um að ríkið ætli að leiða þá miklu framsókn sem er svo mikilvæg fyrir íslenskt samfélag á tímum heimsfaraldurs og upplýsingabyltingar. Staða ríkissjóðs er betri en áætlað var fyrir ári þrátt fyrir Covid. Og hvað er gert? Jú, það á að fara til baka, líkt og ekkert hafi gerst, enginn heimsfaraldur hafi átt sér stað.
Með fjárlagafrumvarpinu ætlar ríkið að sitja hjá á þessum tímum. Aðrir eiga að leiða. Önnur öfl í samfélaginu eiga að leiða en ekki ríkisstjórnin. Ríkisstjórn stöðnunar, ríkisstjórn gamla tímans, ríkisstjórn helmingaskipta, gamla B og D sem við ólumst upp með, nú með aðkomu VG — ríkisstjórn varðstöðunnar um kerfið er ríkisstjórn þessa fjárlagafrumvarps, það liggur ljóst fyrir.“
Ræðuna í heild sinni má lesa HÉR,
og fyrir neðan má sjá Eyjólf flytja jómfrúarræðu sína á Alþingi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.