Jólin og hefðir - Áskorandinn Sigríður Helga Sigurðardóttir Blönduósi
Ég elska jólin og finnst þau mjög skemmtilegur tími. Mér finnst skemmtilegt að skreyta húsið og baka fyrir jólin og á það til að gleyma mér í því að baka og áður en ég veit af get ég verið búin að baka sjö tegundir af smákökum. Þá er það viðbúið að eiginmaðurinn segir: „Helga mín, ertu nú ekki aðeins að fara yfir strikið?“ Jú, það er alveg rétt, ég geri það, því að eftir jólin er ég í vandræðum með hvað ég eigi að gera við það sem eftir er.
Eiginmaðurinn fer aftur á móti nokkuð oft yfir strikið í loftskreytingum og jólaljósaskreytingum. Þannig að húsið okkar líkist nokkuð húsi Griswold fjölskyldunni.
Þrátt fyrir þetta erum við nokkuð sátt með okkar jólabresti, ef svo má segja, enda yrði það skrítin jól ef við myndum ekki dansa á þessari línu og missa fótinn örlítið af línunni.
Reynsla okkar hjóna af jólum er nefnilega alls konar. Því jólin geta líka verið erfið og eigum við líka erfiðar tilfinningar sem tengjast jólum. Veikindi, sjúkrahúsdvöl og dauðsfall hafa líka tengst okkar jólahaldi. Á einhvern hátt höfum við náð að einbeita okkur að gleðinni og hátíðinni sjálfri. Á hverjum jólum þakka ég fyrir það að fá að upplifa jólin okkar aftur og er auðmjúk gagnvart því.
Hefðirnar eru góðar, en stundum ákveðum við að breyta hefðum en stundum ákveður einhver fyrir okkur að breyta hefðum. Fljótlega í okkar búskap breyttist ein hefðin, ENGLAHÁRIÐ. Þannig var að ég vann í Kaupfélaginu og auðvitað var opið til 23 á Þorláksmessu. Feðgar voru heima að koma jólatrénu fyrir, og skreyta. Eiginmaðurinn búin að draga vel úr englahárinu yfir tréð þannig að ljósin komu í gegn eins og snjóföl væri yfir trénu. Þegar hann tekur eftir því að tréð er ekki nógu beint (Getur lifandi jólatré verið beint? Að mínu mati, nei!) skríður hann undir tréð, losar fótinn, sonurinn tæplega þriggja ára að dást að trénu og hugsanlega er hann að taka í greinina eða skrautið.
Nema hvað! Englahárið læsist í hann með þeim afleiðingum að hann verður fastur eins og fluga í köngulóarvef. Nú, faðirinn fastur undir trénu, búin að losa það til að gera það beint, sonurinn dragandi tréð til sín með englahárinu. Faðirinn heldur sig enn við þá sögu að hann hafi beðið soninn undurblítt og án allrar hræðslu í röddinni að vera kyrr og hreyfa sig ekki. En sonurinn varð ekki við tilmælum hans og endaði víst eins og lítil púpa umlukinn englahári um sig miðjan, höfuð upp úr og tær niður. Jólin komu þrátt fyrir lítið englahár á trénu. En hefðin um að umvefja tréð englahári hætti án allrar umræðu.
Við eigum þrjú börn og að því kom að börnin ákváðu að vera heima hjá tengdaforeldrum sínum. Þetta er lífsins gangur en mér hafði kviðið fyrir þessu, ég vissi að þegar börnin voru komin með maka að það styttist í þetta. Svo kom það! Börnin ákváðu og þau vildu öll vera hjá okkur, sömu önnur hver jólin, og sömu önnur hver áramótin. Fyrsta árið sem þau voru ekki hjá okkur um jól ákváðum við hjónin að við ætluðum að hafa þetta hátíðlegt og notalegt. Já þið lásuð rétt við ákváðum! Því ef maður ákveður að hafa hátíðlegt og gaman eru mun meiri líkur á því að það verði, og það varð. Eiginmaðurinn gerði forrétt, við elduðum annan hátíðarmat, og breyttum smá hefðinni. Í ár er einnig breyting á hefðinni nýju þar sem foreldrar mínir og systir verða með okkur á aðfangadagskvöld.
Munið að það skiptir ekki máli hvað þú borðar á milli jóla og nýárs en það skiptir miklu máli hvað þú borðar á milli nýárs og jóla.
Bestu óskir um gleðileg jól.
Ég skora á Birgittu Hrönn Halldórsdóttir, Töfrakonu, að taka við pennanum.
Áður birst í 45. tbl. Feykis 2020
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.