Jólastormur og mislit jól
Í hugum margra er hið fullkomna jólaveður stillt og kyrrt, hvít jörð og gjarnan logndrífa eða hundslappadrífa. Þeim sem hafa óskað sér þannig jólaveðurs þetta árið verður ekki að ósk sinni því í dag gengur sunnan hvassviðri eða stormur yfir landið. Í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands á vedur.is segir að hvassast verði um norðanvert landið, allt að 25 m/s og hviður vel yfir það. Rigning, sums staðar talsverð sunnan- og vestan til, en þurrt að kalla á Austurlandi fram á kvöld. Hlýnar talsvert frá því í gær og verður hiti kominn í 4 til 11 stig síðdegis.
Á Norðurlandi vestra er gul veðurviðvörun í gildi frá klukkan 14 í dag og fram yfir miðnætti. Spáð er sunnan 18-25 m/s með snörpum vindhviðum, allt að 40 m/s. Varasamt veður fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind, og gott að festa lausamuni til að forðast foktjón. Einnig er útlit fyrir talsverða rigningu og snjóbráð og mikilvægt að huga að því að niðurföll séu opin til að forðast vatnstjón að því er segir í spá Veðurstofunnar á vedur.is. Suðvestan 10-18 og él á morgun, hiti kringum frostmark.
Á morgun, jóladag verður suðvestan 10-18 og él á morgun, hiti kringum frostmark en á annan í jólum verður komin norðlæg eða breytileg átt 3-10 m/s og víða dálítil él. Frost 0 til 10 stig, kaldast inn til landsins. Vaxandi norðanátt um kvöldið með snjókomu eða slyddu um landið N-vert.
Það er því útlit fyrir að jólin verði eitthvað mislit víða, hvorki hvít né rauð, en vonandi ágæt engu að síður.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.