Jólamót Molduxa er mótið sem fer ekki fram
Molduxar munu að venju standa fyrir Jólamóti Molduxa í körfubolta nú um jólin og það í 27. skipti. Mótið verður þó með breyttu sniði því það mun ekki fara fram, í það minnsta ekki í raunveruleikanum. Ágóðinn af mótunum hefur runnið til Körfuknattleiksdeildar Tindastóls sem margir vilja styrkja með ráð og dáð og Molduxar deyja ekki ráðalausir frekar en fyrri daginn. Hægt verður að skrá lið til leiks og borga þátttökugjald sem rennur til Kkd. Tindastóls en í stað þess að spila körfubolta í Síkinu geta þátttakendur t.d. hvílt sig heima eða farið út að ganga.
Annars er fréttatilkynning Molduxa á þessa leið: „27. Jólamót Molduxa í körfubolta verður ekki haldið annan í jólum að þessu sinni út af dálitlu. Það verður því ekki heldur sett með veitingu Samfélagsviðurkenningar Molduxa eins og undanfarin ár. Því verður ekki keppt í neinum flokki, og engin lið raðast saman eftir styrkleika strax að lokinni fyrstu umferð.
En ....þar sem allur ágóði af Jólamótum Molduxa hingað til hefur runnið til körfuknattleiksdeildar Tindastóls og er stór liður í fjáröflun deildarinnar, hafa Molduxar ákveðið að bjóða liðum að skrá sig í smá leik og njóta um leið forgangs á þátttöku í Jólamóti Molduxa 2021.
Mun nafn liðsins fara í pott (á Fésbókarsíðu klúbbsins) og kl. 18 á annan í jólum verður eitt lið dregið úr pottinum og hlýtur flatbökuveislu fyrir 10 manns frá Hard Wok Cafe, og gullmedalíur að launum sem væntanlega verða safngripir framtíðarinnar. Fyrir hverja skráningu munu Molduxar jafna hverja greiðslu úr eigin sjóði allt upp í 300.000 kr. Gjald á hvert lið er kr. 20.000.
Einstaklingum er einnig velkomið að skrá sig og fara þeir í annan pott sem dregið er úr og fær viðkomandi kvöldverð fyrir tvo eftir kenjum kokksins á Gránu Bistro og gullmedalíu um hálsinn. Skráning á hvern einstakling er kr. 2000 og jafna Molduxar upphæðina með sömu skilyrðum og að ofan greinir.
Greitt skal fyrir 20. desember inn á reikning 0310-26-006000, kt. 590118-0600
ATH. ef greiðsla er ekki komin fyrir þann tíma verður viðkomandi skráning ekki tekin gild. Skráning á netfangið pilli@simnet.is
Upplýsingar á Fésbókarsíðu Molduxa.“
„Við Molduxar erum bjartsýnir á góða þátttöku enda Jólamótið ómissandi þáttur í jólahaldi Skagfirðinga. Við höfum ekki getað æft vegna Covid takmarkana frekar en önnur lið og sparað okkur þannig húsaleigu og smá sjóður safnast inn á reikning félagsins. Það er tilvalið að koma þeim aurum til körfuknattleiksdeildar Tindastóls og fá aðra til að taka þátt í léttum leik sem léttir örlítið undir á erfiðum tímum. Allir geta verið með hvort sem viðkomandi spilar körfu eða ekki,“ segir jólamótsstjóri Molduxanna.
Þetta er auðvitað frábær hugmynd hjá Molduxum og nú geta jafnvel þeir tekið þátt sem ekki vilja taka þátt – eða þeir sem ekki hafa treyst sér í Síkið.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.