Ingvi Hrannar ráðinn til mennta- og menningarmálaráðuneytisins
Ingvi Hrannar Ómarsson, kennsluráðgjafi við Árskóla á Sauðárkróki, hefur verið ráðinn til starfa hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu en hann er einn fjögurra sem ráðnir hafa verið á skrifstofu skóla-, íþrótta- og æskulýðsmála. Tvö starfanna eru störf án staðsetningar í nýju skólaþróunarteymi ráðuneytisins og hafa þau Ingvi Hrannar og Donata H. Bukowska verið ráðin í þau.
Störf án staðsetningar eru liður í aðgerðum stjórnvalda sem miða að því að að skapa betri tækifæri til atvinnu um allt land og jafna búsetuskilyrði að því er segir í tilkynningu frá ráðuneytinu. Sérfræðingar í skólaþróunarteyminu munu starfa þvert á fagskrifstofur menntamála og er einkum ætlað að fylgja eftir áherslum í nýrri menntastefnu til ársins 2030. Ingvi mun sinna starfi sínu frá Sauðárkróki og er fyrsti starfsmaður ráðuneytisins sem ráðinn er í starf án staðsetningar. Hann hefur starfað sem verkefnastjóri og kennsluráðgjafi í skólaþróun, nýsköpun og upplýsingatækni hjá Sveitarfélaginu Skagafirði. Donata hefur starfað sem kennsluráðgjafi í málefnum nemenda með annað móðurmál í grunnskólum Kópavogs. Donata og Ingvi munu bæði hefja störf á næstu mánuðum.
Óskar H. Níelsson mun taka við starfi sérfræðings á sviði menntamála en hann flyst úr starfi frá Menntamálastofnun þar sem hann starfaði sem þróunarstjóri. Óskar hefur hafið störf hjá ráðuneytinu og Örvar Ólafsson hefur verið ráðinn sérfræðingur á sviði íþróttamála en hann starfaði áður sem verkefnastjóri hjá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands. Örvar mun hefja störf hjá ráðuneytinu 1. febrúar næstkomandi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.