Hvað er jákvæð sálfræði?
Síðastliðinn vetur átti ég því láni að fagna að vera í námsleyfi og stunda nám í jákvæðri sálfræði við Endurmenntun Háskóla Íslands. Ég hef orðið vör við nokkra mistúlkun á því hvað jákvæð sálfræði felur í sér og er gjarnan spurð hvort það sé til neikvæð sálfræði, hvort ég sé þá alltaf jákvæð eða kannski í Pollýönnuleik? Mig langar því að koma hér á framfæri stuttri kynningu á hugmyndafræði jákvæðrar sálfræði þar sem ég tel, fyrir utan að svara áðurnefndum spurningum, að hún eigi erindi til allra og geti stuðlað að aukinni vellíðan fyrir þá sem áhuga hafa, ekki síst á tímum sem þessum.
Jákvæð sálfræði er rannsóknarsvið innan sálfræðinnar sem leit dagsins ljós í kringum síðustu aldamót. Segja má að jákvæð sálfræði hafi risið upp úr því ójafnvægi sem ríkti í rannsóknum á sviði klínískrar sálfræði en þar hefur áherslan verið á að rannsaka andlega vanlíðan, raskanir ýmiss konar og sjúkdóma. Þau rannsóknarefni eru að sjálfsögðu afar mikilvæg og mikil þekking og meðferðarrúrræði sprottið út frá þeim. Upphafsmenn jákvæðrar sálfræði töldu hins vegar að einnig þyrfti að skoða hvað fælist í andlegri vellíðan og beina sjónum að þeim þáttum lífsins sem geri lífið þess virði að lifa því. Jákvæð sálfræði er því vísindaleg nálgun á jákvæða mannlega eiginleika sem hefur það að markmiði að rannsaka hvað reynist fólki vel og stuðlar að vellíðan þess. Athygli er beint að því hvað fær einstaklinga, hópa og stofnanir til að blómstra og hvaða breytur byggja undir og viðhalda jákvæðri heilsu og andlegri vellíðan.
Ein áhrifamesta kenning jákvæðrar sálfræði er mikilvægi jákvæðra tilfinninga fyrir vellíðan. Þar má t.d. nefna tilfinningar eins og gleði, þakklæti, æðruleysi, von, stolt, áhuga, upplifun og ást. Sýnt hefur verið fram á að jákvæðar tilfinningar auka líkamlega, hugræna, félagslega og tilfinningalega getu okkar og færni til að takast á við lífið og tilveruna og byggja upp þrautseigju til að takast á við mótlæti og erfiðleika. Það er því eftir talsverðu að slægjast að auka þátt jákvæðra tilfinninga í daglegu lífi. Enn fremur er mikilvægt að gangast við öllum tilfinningum, líka þeim erfiðu, og gefa þeim rými án þess að að leyfa þeim að ná yfirhöndinni og stjórna líðan okkar. Það gerum við með því að vera meðvituð um á hverju athygli okkar hvílir og hvernig við kjósum að bregðast við. Núvitund getur t.d. aðstoðað okkur við að þróa færni til að bregðast við áreiti og erfiðum tilfinningum á yfirvegaðan hátt og átta okkur á að hugsanir okkar eru ekki endilega hinn stóri sannleikur heldur bara hugsanir.
Nú á síðustu árum hafa rannsakendur innan jákvæðrar sálfræði einnig leitast við að skoða og skilja tengsl milli áfalla og persónulegs þroska í rannsóknarsviði sem nefnt er á ensku post traumatic growth PTG eða Þroski í kjölfar áfalls. Þroski í kjölfar áfalls er skilgreindur sem sú jákvæða breyting sem getur orðið á einstaklingi eftir að hafa tekist á við mótlæti eða áfall. Rannsóknarniðurstöður gefa til kynna að þegar þroski verður í kjölfar áfalls upplifa þolendur oft meiri persónulegan styrk, betri tengsl við aðra, þeir kunna að meta lífið betur, sjá ný tækifæri og eru meira andlega þenkjandi.
Út frá rannsóknarniðurstöðum á sviði jákvæðrar sálfræði hafa verið þróuð svokölluð jákvæð inngrip en það eru markvissar athafnir eða hagnýtar æfingar sem miða að því að rækta með sér jákvæðar tilfinningar, breyta hegðun eða þróa hugræn ferli. Það besta við þessi jákvæðu inngrip er að þau eru flest, ef ekki öll, almenningi aðgengileg og þurfa ekki að kosta neitt. Að þekkja og nýta styrkleika sína, þróa með sér gróskuhugarfar, hafa félagsleg samskipti, efla tengsl við annað fólk, stunda þakklæti, læra nýja hluti reglulega, vera í núvitund, stunda hugleiðslu, gefa af sér á einhvern hátt, stunda hreyfingu, taka þátt í og vera virk/ur í samfélaginu eru allt dæmi um það sem rannsóknir hafa sýnt að stuðli að aukinni andlegri vellíðan og þá er fátt eitt nefnt.
Til að svara spurningunum hér að ofan þá eru önnur svið sálfræðinnar ekki neikvæð og ég er heldur hvorki alltaf jákvæð né í Pollýönnuleik þó Pollýanna sé annars ágætis félagsskapur að öllu jöfnu. Pollýanna hefur nefnilega þá frábæru eiginleika að vera alltaf bjartsýn og vongóð, sem rannsóknir hafa sýnt að skipta miklu máli fyrir vellíðan. Það er alltaf valkvætt hvaða viðhorf við kjósum að hafa, hvort glasið er hálftómt eða hálffullt. Munum líka að það sem við nærum vex og dafnar.
Hugmyndafræði jákvæðrar sálfræði byggir á jákvæðri útkomu, ekki á daglegri líðan því eins og við öll vitum þá býður lífið okkur upp á „alls konar“ sem við þurfum að takast á við. Því er mikilvægt að við skilgreinum og berum kennsl á bjargráðin innra með okkur sem við getum virkjað betur til að stuðla að aukinni vellíðan, til að takast á við mótlæti og geta einnig stutt okkur á þroskabrautinni sem manneskjur og tilfinningaverur í lífsins ólgusjó.
Anna Steinunn Friðriksdóttir.
Höfundur er deildarstjóri við Árskóla
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.