Hlutabótaleiðin framlengd
Hlutabótaleiðin, eða réttur til greiðslu atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitenda, hefur verið framlengd og gildir nú til og með 31. maí 2021. Samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar geta einstaklingar sem verið hafa í fullu starfi farið niður í allt að 50 prósenta starfshlutfall og átt rétt á atvinnuleysisbótum samhliða því starfshlutfalli.
Þá munu atvinnuleitendur fá greidd 6% af grunnatvinnuleysisbótum með hverju barni til og með 31. desember 2021 en áður gilti úrræðið til 31. desember 2020. Áætlaður heildarkostnaður ríkissjóðs vegna breytinganna er 6,7 milljarðar kr. Þar af fara 6 milljarðar króna í framlengingu á hlutabótaleiðinni og 700 milljónir króna í framlengingu á hækkun á greiðslum til atvinnuleitenda vegna barna.
„Við sjáum vonandi fljótlega fyrir endann á því óvissuástandi sem hefur ríkt undanfarna mánuði vegna Covid-19 faraldursins. Það mun hins vegar taka einhvern tíma að komast algjörlega fyrir vind og við getum gert ráð fyrir því að ýmsar takmarkanir muni áfram vera viðvarandi eitthvað fram á árið. Úrræðið hefur nýst mjög vel en það eru mikil verðmæti fólgin í því að sem flestir haldi virku ráðningarsambandi við vinnuveitanda og að hér verði kröftug viðspyrna þegar faraldurinn hefur gengið yfir,” segir Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra í frétt á vef félagsmálaráðuneytisins.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.