Híbýli vindanna og Lífsins tré í miklum metum
Kristín Árnadóttir, djákni og fyrrverandi skólastjóri, svaraði spurningum Bók-haldsins í 23. tölublaði Feykis árið 2019. Kristín hefur verið mikill bókaunnandi frá blautu barnsbeini þegar hún beið eftir því að fá bækur að gjöf á afmælum og um jól. Fræðibækur, æviminningar og skáldsögur eru meðal þess efnis sem hún les mest þó lestrarefnið spanni vítt svið.
Hvers konar bækur lestu helst?
Fræðibækur eru ofarlega á listanum hjá mér, sömuleiðis æviminningar og skáldsögur, bæði eftir íslenska og erlenda höfunda, þó einkum íslenska. Ég leita oft í ljóðabækur, einkum ef ég þarf að geta vitnað í ljóð í skrifum og ávörpum.
Hvaða bækur voru í uppáhaldi hjá þér þegar þú varst barn?
Ég var sílesandi sem barn og unglingur og beið alltaf eftir að fá bækur í jóla- og afmælisgjöf. Möggubækurnar voru mjög spennandi og skemmtilegar og Skottubækurnar sömuleiðis og eignaðist ég flestar í þeim flokkum. Þær eru þýddar úr dönsku.
Hver er uppáhaldsbókin af þeim sem þú hefur lesið gegnum tíðina?
Margar af þeim bókum sem ég hef lesið hafa orðið mér hugleiknar, s.s. Híbýlí vindanna og Lífsins tré eftir Böðvar Guðmundsson sem fjalla um fyrstu landnámskynslóðirnar í Vesturheimi, örlög, erfiðleika og hugrekki landnemanna. Ég hreifst sérstaklega af lýsingu fyrsta Íslendingadagsins í Gimli 2. ágúst 1907, er fólkið kom þar saman víða að eftir langan aðskilnað, hátíðahöldin og þó sérstaklega er Klettafjallaskáldið, Stephan G. Stephanson, sté í ræðustól og flutti í fyrsta skipti hið undurfagra ljóð: Þó þú langförull legðir, sérhvert land undir fót. Ég tárast alltaf er ég hugsa til þessa, svo áhrifarík er þessi saga. Margar aðrar bækur eru mér kærar, s.s. Við sagnabrunninn, sögur og ævintýri frá ýmsum löndum í vandaðri þýðingu Helga Hálfdanarsonar. Ég eignaðist þá bók um 1972 og las upp úr henni fyrir nemendur mína í sögustundum í áratugi, hvort sem börnin voru 6 ára eða 15 ára. Brekkukotsannáll Halldórs Kiljans sömuleiðis, Upp á Sigurhæðir-Saga Matthíasar Jochumssonar eftir Þórunni Jörlu og Saga Ástu eftir Jón Kalman Stefánsson, Galdra-Manga-Dóttir þess brennda eftir finnska Íslandsvininn Tapio Koivukari, þýdd af Sigurði Karlssyni .
Hver er þinn uppáhaldsrithöfundur og hvers vegna?
Ég hef miklar mætur á Þórunni Jörlu Valdimarsdóttur og á flestar hennar bækur. Hún er afar vandvirkur og frjór rithöfundur, hvort sem um er að ræða sjálfsævisögur eða ævisögur annarra. Enn fremur met ég Karl Sigurbjörnsson, biskup, mikils sem höfund dásamlegra bóka um kærleika, trúfesti, uppörvun og von ásamt því að setja á bók áhrifaríkar predikanir, ræður og ljóð „ Í helgum steini“. Einn af mínum uppáhaldsrithöfundum er Jón Kalman Stefánsson sem skrifar af tærri snilld sem ekki er hægt annað en að hrífast með og að lokum nefni ég Kristínu Steinsdóttur sem hefur skrifað margar áhugaverðar bækur, s.s. Ljósu og Vonarlandið, þar sem hún lýsir á áhrifaríkan hátt erfiðum lífsskilyrðum kvenna á 19.öld.
Hvaða bækur eru á náttborðinu hjá þér þessa dagana?
Skúli fógeti, faðir Reykjavíkur eftir Þórunni Jörlu (var rétt að ljúka við hana), Móðir,missir, máttur eftir þrjár konur í Vestmannaeyjum sem skrifa um barnsmissi og hvernig þær tókust á við sorgina, Syndafallið eftir Mikael Torfason og Stórar steplur frá raflost eftir Gunhildi Unu Jónsdóttur.
Áttu þér uppáhaldsbókabúð?
Mér finnst alltaf gott að koma í Pennann Eymundsson, hvort sem er í Reykjavík eða á Akureyri.
Hvað áttu margar bækur í bókahillunum heima hjá þér?
Um 700 bækur svona lauslega talið.
Hvað kaupirðu eða eignast að jafnaði margar nýjar bækur yfir árið?
Þrjár til fjórar bækur og maðurinn minn annað eins.
Eru ákveðnir höfundar eða bækur sem þú færð „alltaf“ í jólagjöf?
T.d. Þórunn Jarla og Jón Kalman Stefánsson og við hjónin fáum alltaf góðar óskabækur frá sonum okkar og fjölskyldum.
Hefur einhver bók sérstakt gildi fyrir þig?
Já, Ritverk Kristínar Sigfúsdóttur, 1876-1953. Amma mín og nafna gaf mér bækurnar þrjár sem innihalda öll verk hennar, en þær voru systradætur. Kristín Sigfúsdóttir ólst upp á Helgastöðum í Saurbæjarhreppi í Eyjafirði og á þeim tíma voru engir möguleikar fyrir efnalítið bændafólk að senda börn sín til mennta, allra síst stúlkur. Hún var afburða greind og las allt sem hún náði í frá fimm ára aldri og fór að skrifa á blaðasnifsi ung að árum, en lét engan vita af því og brenndi jafnóðum. Síðar á ævinni voru það stolnar stundir sem nýttar voru til skrifa, því ekki gafst húsmóður á barnmörgu sveitaheimili mikill tími til ritstarfa á þeim árum. Móðurbróðir hennar, Páll J. Árdal, kennari og skáld á Akureyri, hvatti hana ætíð til dáða og átti mikinn þátt í að skrif hennar komu fyrir sjónir samferðafólksins, og stuðlaði að því að hún sótti síðar um rithöfundastyrk til Alþingis, sem hún naut á meðan hún lifði. Kristín skrifaði bernskuminningar sínar og nokkrar smá- og skáldsögur ásamt fjölda ljóða, t.d. minningaljóð sem hún var beðin um og lágu henni töm á tungu og eru góð heimild um vitra og göfuga konu sem kunni svo vel að miðla kærleiksgjöfum huggunar og trúar. Þessar bækur eru mér afar dýrmætar og hef ég lesið mikið upp úr þeim í starfi mínu sem djákni á helgi- og samverustundum með öldruðum.
Hefur þú heimsótt staði sem tengjast bókum eða rithöfundum þegar þú ferðast um landið eða erlendis?
Já, t.d. kom ég að Helgastöðum í Saurbæjarhreppi þar sem Kristín Sigfúsdóttir fæddist, í Nonnahús á Akureyri og Gljúfrastein í Mosfellssveit.
Ef þú ættir að gefa einhverjum sem þér þykir vænt um bók, hvaða bók yrði þá fyrir valinu?
Bænabók Karls Sigurbjörnssonar biskups. Dásamleg bók þar sem finna má fagrar frásagnir, bænir, ritningavers og sálma og er skipt í kafla eftir kirkjuárinu. Mér finnst hún einnig tilvalin fermingargjöf og í raun fyrir hvern kristinn mann.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.