Hættu nú alveg!
ÁR ÞÚ VEIST HVAÐ :: „Þrátt fyrir allt átti ég gott ár og góðar samverustundir með mínum nánustu. Ég ætla að minnast þessa árs fyrir þær – ekki þess sem ekki gekk eftir,“ segir Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, þegar Feykir spyr hvað það sé sem hún hafi mest séð eftir að hafa ekki geta gert á árinu. Unnur býr á Hvammstanga og stjörnumerkið hennar er tvíburi. Árinu lýsir hún með þessum þremur viðeigandi orðum: „Hættu nú alveg!“
Hver er maður ársins? Hér er hægt að nefna fjölmarga þá sem staðið hafa í eldlínunni undanfarna mánuði. Ég ætla þó að nefna íslensku þjóðina alla. Með samtakamætti höfum við náð ótrúlegum árangri í erfiðri baráttu undir leiðsögn öflugra og traustra aðila. Enn og aftur sýnum við hvers við erum megnum þegar við leggjumst á árar.
Hver var uppgötvun ársins (fyrir utan bóluefni við þú veist hvað)? Bakgrunnar á teams og zoom til að fela draslið á heimaskrifstofunni (sem er lítið stærri en kústaskápur).
Hvað var lag ársins? Tónlistarmaðurinn Auður átti frábært ár. Stuttskífan hans, Ljós, stendur upp úr í mínum huga. Stórkostlegt verk þar sem blandað er saman ólíkum heimum. Ótrúlega hæfileikaríkur tónlistarmaður.
Hvað var broslegast á árinu? Uppistand Ara Eldjárns á Netflix. Ég brosti allan tímann, bæði af því að Ari er svo fyndinn en líka af stolti yfir að horfa á íslenskan uppistandara flytja efni sitt í efnisveitu sem er aðgengileg út um allan heim. Það er ekkert smá!
Hvað var það sem þú sérð mest eftir að hafa ekki geta gert á árinu vegna þú veist hvað? Ég hef tamið mér að horfa fram á veg fremur en í baksýnisspegilinn. Á árinu vorum við sett í stöðu sem ekkert okkar gat séð fyrir. Við öll vorum með plön um hitt og þetta sem ekki gengu eftir. Eftirsjá eftir þeim hjálpar engum. Þrátt fyrir allt átti ég gott ár og góðar samverustundir með mínum nánustu. Ég ætla að minnast þessa árs fyrir þær – ekki þess sem ekki gekk eftir.
Varp ársins? Það er óhætt að segja að sjónvarpsáhorf hafi verið óvenju mikið á árinu og efnið misgott eins og gengur. Það sem stendur upp úr eru þó þættir Baggalúts núna á aðventunni, Kósíheit í Hveradölum, frábærir tónlistarmenn, bæði þeir sjálfir og þeirra gestir, húmor og jólaskap. Komst næst því að fara á jólatónleika þetta árið.
Matur eða snakk ársins? Á mínu heimili er það matur framleiddur á Norðurlandi vestra sem var mun meira á borðum þetta árið en áður þökk sé sölubíl Vörusmiðju BioPol.
Hverju viltu skella á brennuna og hvers vegna? Dómhörku og fordómum. Við höfum séð mörg ansi harkaleg dæmi um slíkt á síðustu mánuðum. Setjum orkuna í eitthvað uppbyggilegra. Það eru allir raunverulega að gera sitt besta við erfiðar aðstæður – ég trúi því í það minnsta.
Hver var helsta lexía ársins? Að með því að hægja aðeins á – komumst við í raun og veru yfir meira.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.