Hæfnihringir vinsælir

Góð aðsókn er í Hæfnihringi sem er stuðningur fyrir konur í fyrirtækjarekstri á landsbyggðinni og hafa rúmlega 40 konur skráð sig til þátttöku. Verkefnið er samstarfsverkefni atvinnuþróunarfélaga og landshlutasamtaka en að því standa Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi, Vestfjarðarstofa, Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi eystra, Austurbrú, Samtök sveitarfélaga á Suðurlandi og Samtök sveitarfélaga á Suðurnesjum/atvinnuþróunarfélagið Heklan.

Á vef Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra segir að aðsóknin hafi farið fram úr björtustu vonum og munu konurnar hefja leik innan skamms í sex hópum. Hæfnihringirnir fara fram í gegnum fjarfundarbúnað sem auðveldar konum af öllu landinu að taka þátt. Fundirnir verða sex talsins, einu sinni í viku í sex vikur, í þessari umferð þar sem tæpt verður á helstu áskorunum sem konurnar eru að glíma við, svo sem markaðssetning á samfélagsmiðlum og tímastjórnun.

Í Hæfnihringjunum fá konurnar tækifæri til að tengjast öðrum konum í svipuðum sporum víðs vegar um landið, mynda tengslanet, deila sín á milli og fá ráð hjá öðrum. Auk þess verða leiðbeinendur hringjanna með viðeigandi fræðslu sem miðuð er út frá þeim áskorunum sem hver hópur á sameiginlegt að standa frammi fyrir. Hæfnihringirnir eru fjármagnaðir af samstarfsaðilunum og standa því konunum til boða endurgjaldslaust.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir