Hacking Norðurland - viltu vera frumkvöðull yfir eina helgi?

Eimur, SSNV, SSNE og Nýsköpun í norðri í samstarfi við Hacking Hekla, Nordic Food in Tourism og Íslandsbanka bjóða skapandi heimamönnum á Norðurlandi að verja helgi sem frumkvöðlar og vinna að hugmyndum og verkefnum sem “uppfæra” svæðið. Sigurteymi Hacking Norðurland hlýtur peningaverðlaun.

Hakkaþon eða lausnamót, er nýsköpunarkeppni þar sem fólk kemur saman og skapar lausnir yfir stuttan tíma - venjulega um 24-48 klukkustundir. Lausnamót eru frábær vettvangur fyrir hvern sem er til að deila reynslu og þekkingu og vinna að viðskiptahugmynd eða verkefni.

Hacking Norðurland er lausnamót sem fer fram dagana 15.-18. apríl næstkomandi á Norðurlandi. Unnið verður með sjálfbæra nýtingu auðlinda svæðisins með tilliti til matar, vatns og orku. Markmið lausnamótsins er að efla frumkvöðlastarf og sköpunarkraft á svæðinu og þannig stuðla að nýjum verkefnum og viðskiptatækifærum. Lausnamótinu er ekki síður ætlað að vekja athygli á því öfluga frumkvöðlasamfélagi sem er á Norðurlandi. Útkoman úr lausnamótinu getur verið stafræn lausn, vara, þjónusta, verkefni, hugbúnaður, vélbúnaður eða markaðsherferð. Hacking Norðurland er samstarfsverkefni Hacking Hekla, Eims, Nordic Food in Tourism, SSNE, SSNV og Nýsköpun í norðri. Íslandsbanki styrkir verkefnið.

Norðurland er stórt svæði og til að tryggja að allir áhugasamir geti tekið þátt, hvar sem þeir eru staðsettir fer lausnamótið fram sem “tvinn-viðburður”, það er á netinu og í raunheimum í senn.. Lausnamótið hefst 15. apríl með opnunarviðburði og vefstofu þar sem rætt verður um þau tækifæri sem felast í auðlindum svæðisins. Föstudaginn 16. apríl hefst svo lausnamótið sjálft sem stendur í 48 klukkustundir og fer að stærstum hluta til fram í gegnum Hugmyndaþorp, sem er stafrænn vettvangur til samsköpunar, þróaður af sprotafyrirtækinu Austan mána í samstarfi við Hacking Hekla. Samstarfsteymi Hacking Norðurland mun ferðast á milli frumkvöðlasetra á svæðinu meðan á lausnamótinu stendur og geta þátttakendur nærri þeim setrum nýtt sér möguleikann á því að vinna að hugmyndum sínum þar. Lausnamótið endar sunnudaginn 18. apríl með lokaviðburði þar sem dómnefnd velur þrjú bestu verkefnin. Þátttakendur fá þannig tækifæri til að kynnast nýtingu auðlinda á Norðurlandi, tengjast nýju fólki og eflast í að vinna ný verkefni út frá áskorunum svæðisins.

Hacking Norðurland er annað lausnamótið sem haldið er í samstarfi við Hacking Hekla sem er samstarfsvettvangur um lausnamót fyrir landsbyggðina. Hacking Hekla teymið stefnir á að ferðast hringinn í kringum landið og efla atvinnusköpun í gegnum nýsköpun og frumkvöðlastarf. Það er leiðarljós Hacking Hekla að skapa sterkt tengslanet á milli frumkvöðla og stuðningsaðila á landsbyggðinni, sem og að tengja saman frumkvöðlasenur í dreifbýli og þéttbýli á Íslandi.

Lausnamótið er fyrir alla sem vilja kynnast nýtingu auðlinda á Norðurlandi, tengjast nýju fólki og eflast í að vinna ný verkefni út frá áskorunum svæðisins. Þátttakendur þurfa ekki að búa yfir reynslu eða hafa tekið þátt áður í lausnamóti eða öðru frumkvöðlastarfi. Allar upplýsingar og dagskrá má finna á heimasíðu Hacking Hekla en þar fer einnig fram skráning í gegnum Hugmyndaþorp.

“Matur, orka og vatn eru lykillinn að sjálfbærni og við fengum þessar mögnuðu auðlindir í vöggurgjöf hér á Norðurlandi. Hvað svo? Hvað ætlum við að gera til að mæta framtíðinni? Við viljum kanna einmitt það á lausnamótinu Hacking Norðurland og hlökkum til að fá sem flesta með okkur í lið yfir helgina"

- Sesselja Barðdal, framkvæmdarstjóri Eims -

Fyrir frekari upplýsingar:
Sesselja Barðdal Reynisdóttir fh. Eims / sesselja@eimur.is / 868-5072
Svava Björk Ólafsdóttir fh. Hacking Hekla / svava@rata.is / 695-3918

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir