Gul veðurviðvörun í dag og á morgun
Nú er gul veðurviðvörun í gildi um allt land sem gildir til miðnættis annað kvöld. Gert er ráð fyrir vaxandi norðanátt, víða hvassviðri eða stormi eftir hádegi og jafnvel enn hvassara í vindstrengjum sunnanlands. Búist er við snjókomu á norðurhelmingi landsins og verður sums staðar talsverð ofankoma að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar.
Ótíðin heldur áfram og á morgun er gert ráð fyrir norðan stormi með snjókomu eða él norðan- og austanlands og kólnandi veðri. Lægir og styttir upp seinnipart föstudags, fyrst NV-lands.
„Í dag, á morgun og fram á föstudag er semsagt útlit fyrir fyrsta alvöru norðanáhlaup vetrarins. Á Norður- og Austurlandi verður vindstyrkur og snjókomumagn væntanlega nægilegt til að tala megi um stórhríð, að minnsta kosti á einhverjum köflum í tíma. Ekki er gert ráð fyrir að vind lægi að gagni fyrr en síðdegis á föstudag, þá fyrst vestast á landinu. Þá styttir einnig upp fyrir norðan og austan.Eins og oft vill verða þegar lægir og léttir til eftir kalda norðanátt, þá hækkar frosttölur á hitamælum og horfur eru á hægum vindi um helgina með hörkufrosti,“ segir ennfremur á vedur.is.
Á Norðurlandi er nú vetrarfærð, snjóþekja á flestum vegum í Skagafirði og Austur-Húnavatnssýslu með éljagangi skafrenningi en hálka og skafrenningur í Vestur-Húnavatnssýslu. Þæfingur er á Siglufjarðarvegi utan Ketiláss og vegurinn um Þverárfjall og Holtavörðuheiði er lokaður vegna ófærðar. Fylgjast má með færð á vegum á vef Vegagerðarinnar, vegagerdin.is.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.