Guðrún Helga nýr formaður USVH

Guðrún Helga Magnúsdóttir, nýkjörinn formaður USVH. Mynd:UMFÍ
Guðrún Helga Magnúsdóttir, nýkjörinn formaður USVH. Mynd:UMFÍ

Guðrún Helga Magnúsdóttir tók við formennsku Ungmennasambands Vestur-Húnvetninga á 79. héraðsþingi sambandsins sem haldið var á Hvammstanga þann 15. júní síðastliðinn. Guðrún tekur við af Reimari Marteinssyni sem gegnt hefur formennsku síðastliðin sex ár. Guðrún Helga, sem er 23 ára gömul og búsett á Hvammstanga, er á meðal yngstu formanna sambandsaðila UMFÍ.

„Við tökum öll að okkur ýmislegt í sveitinni og leggjumst saman á eitt. Húnaþing er lítið en öflugt samfélag þar sem allir þekkja alla og vita hvernig á að nýta styrkleika fólks. Ég var opin fyrir því að koma í stjórnina, finnst gaman að vera í forystu og er að safna í reynslubankann,“ segir Guðrún Helga Magnúsdóttir í fréttatilkynningu frá UMFÍ. Hún bendir á að hún er aðflutt fyrir 10 árum þó hún  eigi rætur að rekja til Miðfjarðar þaðan sem faðir hennar, séra Magnús Magnússon, er og í sveitinni hafi hún haft annan fótinn í æsku. Guðrún Helga er jógakennari og zumbakennari og er nýútskrifaður nuddari, með bakgrunn í körfubolta, fótbolta og spretthlaupum og viðurkennir að hún sé ágætlega aktív. 

Fólk ánægt með nýjan formann

Sambandssvæði USVH er Húnaþing vestra, Miðfjörður og þar á meðal Hvammstangi. Innan USVH eru fimm aðildarfélög. Guðrún Helga situr í stjórn Ungmennafélagsins Grettis í Miðfirði ásamt tveimur öðrum konum og er hún gjaldkeri félagsins. Ungmennafélagið Grettir sér meðal annars um réttaballið í sveitinni og jólabingó og félagsvist á milli jóla og nýárs.

Athygli vekur að Guðrún Helga er ný í stjórn USVH og segir hún aðdragandann að stjórnarsetunni hafa verið stuttan. „Kona sem vinnur með mér bað mig um að koma í stjórnina. Ég var opin fyrir því af því að hér gera allir allt,“ segir hún en bætir við að hún hafi ekki komist á þingið og ekki vitað niðurstöðuna strax. „Daginn eftir var fólk sem ég hitti alltaf að óska mér til hamingju. Það kom mér á óvart því ég vissi ekki að fólk væri svona ánægt með að ég væri orðin formaður,“ segir hún. 

Hvetja til þátttöku á Unglingalandsmót

Guðrún Helga er afar spennt fyrir komandi tíð í kjölfar ársþings USVH. „Húnaþing er afar liðlegt samfélag og allir til í að leggja af mörkum,“ segir hún en hún fer á sinn fyrsta stjórnarfund hjá USVH í næstu viku. „Þar leggjum við línurnar fyrir sumarið. Ég veit að við munum sjá um þríþraut á bæjarhátíðinni Eldur í Húnaþingi í júlí og svo ætlum við að hvetja börn og foreldra þeirra til að taka þátt í Unglingalandsmóti UMFÍ á Selfossi um verslunarmannahelgina,“ segir Guðrún Helga.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir