Gamli góði gleðigjafinn
ÁR ÞÚ VEIST HVAÐ :: „Það skemmtilegasta, sem kemur upp í huga minn þegar ég lít til baka á árið, eru uppákomur Eika Hilmis, sem hann deildi með samferðafólki sínu á Facebook,“ segir Ingi Jónasson þegar hann er inntur eftir því hvað hafi verið broslegast á árinu. Ingi, kannski best þekktur sem Ingi Vaff hér heima, er gamall Feykispenni en stendur nú við stýrið hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Aptic og gerir út frá Skövde í Svíaríki. Hann er hrútur, notar skóbúnað í númerinu 45 og segist hafa lært margt nýtt á árinu sem er að líða.
Hver er maður ársins? Ætli ég segi ekki Biden og Harris, sem vekja von um að vitleysan í veröldinni verði aðeins minni næstu árin.
Hver var uppgötvun ársins (fyrir utan bóluefni við þú veist hvað)? Allt það sem venjulegt fólk hefur fundið uppá til að fyrirvaralaust takast á við algerlega nýjar áskoranir og leysa málin þegar við stöndum frammi fyrir áskorunum.
Hvað var lag ársins? Stórt er spurt og enn minna um svör. Hef að undanförnu verið að hlusta á finnsku sveitina Nightwish sem hafði farið framhjá mér fram að þessu.
Hvað var broslegast á árinu? Veit ekki hvort broslegt er rétta orðið en það skemmtilegasta, sem kemur upp í huga minn þegar ég lít til baka á árið eru uppákomur Eika Hilmis, sem hann deildi með samferðafólki sínu á Facebook. Þessi gamli góði gleðigjafi og snillingur er svo léttur þegar hann tekur skagfirskan svalasöng með tilþrifum og spilar síðan víða á ferð sinni um landið. Stundum er hann í félagsskap góðra manna sem eiga framættir að rekja til Ögmundarstaða, sem setur gullkant á giggin. Takk fyrir að lífga uppá tillveruna.
Hvað var það sem þú sérð mest eftir að hafa ekki geta gert á árinu vegna þú veist hvað? Það er kanski einna helst að geta ekki farið í þau ferðalög sem mig lystir. Á móti kemur að ég hef sloppið við þetta eilífa skrölt til Stokkhólms og Oslóar, sem er búið að vera hluti af tilverunni til margra ára. Miklu betra að sitja heima í Microsoft Teams og taka fundina þar.
Varp ársins? Frjálsar hendur eru fyrir mér hlaðvarp ársins á hverju ári. Illugi er mikill sagnaþulur og skemmtilegur að hlusta á.
Matur eða snakk ársins? Libanesiskt Meze.
Hverju viltu skella á brennuna og hvers vegna? Ætli það sé ekki viss veira, sem maður vildi sjá brenna upp til agna.
Hver var helsta lexía ársins? Hvað fólk er fljótt að leysa ný vandamál en að sumir eru fljótir að gleyma og virðast seint læra af reynslunni.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.