Framkvæmdum við Blönduósflugvöll lokið
Framkvæmdum á Blönduósflugvelli er lokið en ein af tillögum átakshóps ríkisstjórnarinnar um úrbætur í innviðum sem kynnt var snemma á þessu ári sneri að viðhaldi vallarins. Miðað var að því að tryggja að völlurinn yrði nothæfur fyrir sjúkraflug en í aðgerðalýsingu úrbóta fyrir völlinn er það tiltekið að vegna staðsetningar hans við þjóðveg eitt sé hann mikilvægur þegar slys verða á fólki og mínútur skipta máli.
Í haust var flugstöðin lagfærð og máluð að utan og papilljós sett upp og hafa þau nú hafa verið flugprófuð. Jafnframt var hannað nýtt aðflug að vellinum að beiðni Mýflugs. Í mars síðastliðnum var samþykkt að ráðast í sérstakt tímabundið fjárfestingarátak á árinu til að vinna gegn samdrætti í hagkerfinu í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru. Veittar voru 90 milljónir til viðhalds á innanlandflugvöllum og lendingarstöðum.
Málið hefur verið eitt af áherslumálum Blönduósbæjar við uppbyggingu innviða samfélagsins og hefur verið þrýst á það reglulega. Í samgöngu- og innviðaáætlun Norðurlands vestra sem stjórn Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra samþykkti í júní í fyrra var einnig lögð áhersla á að Blönduósflugvöllur yrði skilgreindur fyrir sjúkraflug og tryggt að hann geti þjónað flugi með viðunandi hætti.
Heimild: Huni.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.