Flugeldasýningar og áramótaveðrið

Mynd:pexels.com
Mynd:pexels.com

Eins og flestum mun vera kunnugt verða ekki haldnar áramótabrennur þetta árið þó margir vildu sjálfsagt sjá árið sem er að líða fuðra upp á góðum bálkesti. Engu að síður verða þó haldnar flugeldasýningar á vegum björgunarsveitanna á morgun, rétt eins og venja er, en þó verður sums staðar brugðið út af hefðinni varðandi tíma og staðsetningu.

Áramótaveðrið lofar góðu fyrir þá sem vilja njóta ljósadýrðarinnar en verður ekki eins hagfellt fyrir þá sem glíma við öndunarfæraóþægindi af völdum skoteldanna. Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands, vedur.is, segir að á morgun verði breytileg átt 3-10 m/s og léttskýjað á landinu en líkur á lítilsháttar éljum norðan- og vestan til. Áfram kalt í veðri. Annað kvöld verður vindurinn afar hægur víðast hvar auk þess sem loftið yfir landinu verður nokkuð stöðugt. Við slíkar aðstæður á flugeldamengun sér enga undankomuleið og því er viðbúið að loftgæði verði léleg þar sem mikið er skotið, segir á vedur.is.

Flugeldasýningar á Norðurlandi vestra verða sem hér segir:

Sauðárkrókur:
Að þessu sinni verður flugeldasýningin með aðeins breyttu sniði. Skotið verður upp á Nöfunum við Grænuklauf og því tilvalið að fylgjast með að heiman þar sem hún ætti að sjást um mest allan bæ.

Sýningin hefst klukkan 21:00.

Hofsós:
Skotið verður upp á brennustæðinu á Móhól þannig að sýningin sést úr öllum áttum og frá flestum stöðum í bænum. Björgunarsveitin biður fólk um að koma ekki upp á hól.

Sýningin verður fyrr en vanalega eða klukkan 17:00.

Hólar: 
Sýningin verður að þessu sinni inni á Hólum í nánd við Nýjabæ.

Sýningin verður klukkan 17:00. 

Varmahlíð:  
Skotið verður upp neðan við Varmahlíð svo sýningin ætti að sjást vel úr Varmahlíð.

Sýningin hefst klukkan 17.00.

Skagaströnd:
Skotið verður upp á Skagastrandarhöfn (á Útgarði) og er mælst til að fólk fylgist með sýningunni án hópamyndana úr bílum sínum (t.d. frá Víkinni eða við Kaffi Bjarmanes) eða híbýlum sínum þar sem útsýni leyfir.

Sýningin hefst klukkan ​21:30.

Blönduós:
Sýningin verður á sama gamla góða staðnum milli blokkarinnar og Miðholts, því verður hægt að fylgjast með og njóta sýningarinnar úr fjarlægð. Íbúar á Blönduósi eru hvattir til að njóta flugeldasýningarinnar heiman frá sér.

Sýningin hefst klukkan 20:30. 

Hvammstangi:
Flugeldasýning verður á hafnarsvæðinu Hvammstanga í boði fyrirtækja í Húnaþingi vestra. Fólk er hvatt til að njóta sýningarinnar að heiman eða úr fjarlægð í sinni „jólakúlu”.

Sýningin hefst klukkan 21:00. Henni verður einnig steymt beint á Facebook síðu Björgunarsveitarinnar Húna https://www.facebook.com/bjsvhunar 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir