Eric Clapton nýr hluthafi í Vatnsdalsá

Eric Clapt­on sumarið 2016 með 108 cm lax úr Línufljóti í Vatns­dalsá. Mynd:vatnsdalsa.is
Eric Clapt­on sumarið 2016 með 108 cm lax úr Línufljóti í Vatns­dalsá. Mynd:vatnsdalsa.is

Tónlistarmaðurinn þekkti, Eric Clapton, er orðinn þriðjungshluthafi í hlutafélaginu GogP ehf. sem hefur Vatnsdalsá á leigu en þrír eig­end­ur eru nú í fé­lag­inu að því er fram kemur á veiðivef mbl.is, Sporðaköstum. Þar segir einnig að á sama tíma sé Pét­ur Pét­urs­son að selja sig út úr fé­lag­inu og seg­i þar með skilið við Vatns­dal­inn sem hann hef­ur fóstrað frá 1997.

Breyting þessi var kynnt á fé­lags­fundi í Veiðifé­lagi Vatns­dals­ár í fyrrakvöld. Formaður fé­lags­ins kynnti þá nýja eig­end­ur fé­lags­ins sem hef­ur leigu­samn­ing­inn um ána og um leið var greint frá brott­hvarfi Pét­urs Pét­urs­son­ar. Aðrir hlut­haf­ar í fé­lag­inu GogP ehf. eru Björn K. Rún­ars­son og Sturla Birg­is­son. Björn hef­ur lengi verið leiðsögumaður við Vatns­dalá og hlut­hafi með Pétri. Sturla rek­ur Laxá á Ásum og er landsþekkt­ur mat­reiðslumaður.

Í samtali við Sporðaköst segir Björn Rún­ars­son að auðvitað sé mik­ill styrk­ur að því að fá mann á borð við Eric Clapt­on inn í fé­lagið. „Hann er ástríðuveiðimaður og elsk­ar Ísland. Hann hef­ur veitt hér hjá okk­ur síðustu tíu ár og þetta er hans leið til að halda tengsl­um við ána og landið. Svo er nátt­úru­lega dýr­mætt að fá inn sem hlut­hafa mann með tengslanet á borð við Eric Clapt­on. Hann mun án ef nýt­ast okk­ur vel í að ná í nýja viðskipta­vini,“ sagði Björn.

Tónlistarmaðurinn mun vera væntanlegur í Vatnsdalinn í sumar ef COVID faraldurinn kemur ekki í veg fyrir það.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir