Enn eru samningar við bændur sem fengu riðu á bú sín í haust ófrágengnir

Bergþór Ólason beinir spurningum til landbúnaðarráðherra er varða ófrágengna samninga við bændur sem þurftu að skera niður fé vegna riðu sl. haust. Mynd: Skjáskot af vef Alþingis.
Bergþór Ólason beinir spurningum til landbúnaðarráðherra er varða ófrágengna samninga við bændur sem þurftu að skera niður fé vegna riðu sl. haust. Mynd: Skjáskot af vef Alþingis.

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins í NV kjördæmi, beindi í gær spurningum til landbúnaðarráðherra, Kristjáns Þórs Júlíussonar, í óundirbúnum fyrirspurnatíma Alþingis um stöðu á samningum við þá bændur í Skagafirði sem þurftu að skera niður vegna riðu sl. haust og hver staðan væri við endurskoðun reglugerðar þar að lútandi, en ráðherra boðaði endurskoðun á reglugerðinni fyrir nokkru síðan. Að sögn Kristjáns Þórs eru samningar langt komnir.

Bergþór rifjaði upp að í október síðastliðnum hafi riða komið upp á nokkrum bæjum í Skagafirði og í kjölfarið hafi öllu fé verið fargað en staðan væri enn þannig að samningar við þá bændur séu ófrágengnir.

„Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann eigi fyrir mig fréttir af því hvernig sá undirbúningur gengur, því að nú í byrjun mars kom upp riða í Vatnsneshólfi í Húnaþingi vestra og skal engan undra að þeim bónda, sem sér fram á niðurskurð á fé sínu, hugnist ekki hversu mikill dráttur hefur orðið á samningagerð við bændur í Skagafirðinum. Nú er liðið á sjötta mánuð síðan sú staða var uppi þar. Mig langar í þessu samhengi að spyrja hæstv. ráðherra um fjárhagsleg áhrif þeirra samninga sem hér um ræðir.

Í fyrsta lagi: Kemur til greina að mati ráðherra að framlengja tímabil afurða tjónsbóta? En tímabil tekjufalls heldur áfram lengur en sá tími sem afurðatjónsbætur ná yfir samkvæmt núgildandi reglum og er þar vísað í takmarkaða framleiðslugetu fyrst eftir að fé er tekið aftur.

Í öðru lagi: Kemur til greina að endurskoða það verð sem miðað er við til bóta þegar skorið er niður? Það liggur fyrir að þær bætur sem nú er miðað við duga ekki fyrir bændur til að koma upp nýjum bústofni,“ spurði Bergþór.

Kristján Þór þakkaði fyrirspurnina og viðurkenndi að það væri honum ákveðin vonbrigði að málið væri ekki þegar komið til enda. „Vegna þess að við þekkjum það öll hversu mikið áfall það er fyrir fólk sem lendir í þeim aðstæðum sem greining á riðu er í sauðfjárbúskap. Það er mikið högg og afskaplega erfitt fyrir alla sem því tengjast að ganga í gegnum slíkt áfall. Þegar þetta kom upp í fyrrahaust voru tilmæli mín og óskir til bæði ráðuneytisins og Matvælastofnunar að ganga eins hratt í þetta og unnt væri til að létta á þeim þrýstingi sem eðlilega er á það ágæta fólk sem staðið hefur í þessum búrekstri.

Af því að hv. þingmaður spyr hvernig þetta gangi þá er staðan þannig að samningar eru langt komnir eftir mínum upplýsingum. Við munum fá sérstakan starfsmann inn í ráðuneytið til að sinna þessum málum sérstaklega og yfirfara allt verklag, m.a. með tilliti til þeirra nýju viðfangsefna sem borið hafa uppi. Yfirdýralæknir kemur vonandi í ráðuneytið í næstu viku til að taka þetta allt í gegn. Samningar við bændur hafa dregist, eins og ég gat um áðan, þeir eru langt komnir. Þetta er gríðarlega snúið verkefni vegna þess að sjónarmiðin í þessu eru misjöfn og menn takast á um þær stærðir sem hv. þingmaður nefndi varðandi afurðatjónsbætur og fleiri þætti.

Ég kann þetta ekki í neinum smáatriðum en vilji minn stendur til þess að þessu verði lokið eins fljótt og kostur er. Ég þekki ekki nákvæmlega stöðuna á samningunum en ég veit þó að skjöl hafa gengið á milli, drög að samningum og annað því um líkt, þar sem menn skiptast á áherslum varðandi endanlegan frágang,“ sagði Kristján Þór Júlíusson.

Sjá nánar um umræðurnar HÉR

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir