Dökkt útlit á Heiðarfjalli á Langanesi - Siddi gull

Nýlega kom út bókin Siddi gull – æviminningar Sigmars Ó. Maríussonar gullsmiðs. Það er Guðjón Ingi Eiríksson sem skráði og Bókaútgáfa Hólar sem gefur út. Margt hefur á daga Sigmars drifið, hann missti ungur móður sína, var settur í fóstur, en strauk þaðan og 21 árs gamall lenti hann í bílslysi og missti þar báða fætur. Fleira hefur á honum dunið, en hann hefur aldrei gefist upp þótt á móti hafi blásið og leikur hin létta lund sem honum var gefin þar stórt hlutverk. Til gamans má geta þess að bróðir Sigmars, Aðalsteinn Maríusson, býr á Sauðárkróki, víða kunnur fyrir steinsmíði og múrverk

Hér á eftir verður gripið niður í bókina, en Sigmar hefur lengi búið í Kópavogi og rekið þar fyrirtæki sitt, Modelskartgripi. Frásögnin hefst á örlagaríku síðdegi á Heiðarfjalli á Langanesi, þar sem Sigmar vann við byggingu ratsjárstöðvarinnar:

6. nóvember 1956 ─ slysið á fjallinu
Laugardaginn 6. nóvember var ég við störf í turninum þar sem aðaldjásnið, sjálf radarkúlan, átti að vera. Þá kemur að máli við mig einn af vinnufélögunum, Trausti Björnsson frá Norðfirði. Hann hafði komið gagngert að austan til að vinna á fjallinu og með honum eiginkonan, Sigurveig Halldóra Björnsdóttir. Hún er ættuð frá bænum Ártúni og hélt þar til á meðan hann sinnti verkum sínum.  Svo færu þau aftur heim. 

Erindi Trausta var að biðja mig að skjótast undir kvöldið eftir eiginkonunni og var það auðsótt mál af minni hálfu. Ég átti þá orðið Willys-jeppa, árgerð ´47, og það var ekki langt að Ártúni, einungis örfáir kílómetrar. Við Sigurveig lögðum af stað þaðan um sexleytið. Úti var svartamyrkur, en veðrið var gott og jörðin var alauð. Betra gat þetta ekki verið miðað við árstíma.

Þegar við erum á leið upp fjallið tek ég eftir því að það rýkur úr vatnskassanum á jeppanum. Hann átti það til að ofhitna og var ég þessu viðbúinn. Undir bílstjórasætinu geymdi ég slöngubút. Þannig var um fleiri jeppaeigendur á þessum tíma. Búturinn tók minna pláss en brúsi og var hægt að smeygja honum undir annað hvort framsætið. Hann kom oft í góðar þarfir, bæði hjá mér og öðrum.  Fyrir annan endann hafði ég svo límt til að hægt væri að fylla hann af vatni. 

Á þessum tíma var vinstri umferð á Íslandi. Ég vissi af lítilli lækjarsprænu hægra megin við veginn. Ek ég því yfir á þann vegarhelming til að vera nær henni og stöðva jeppann þar.  Síðan fer ég og fylli slöngubútinn af vatni. 

Jeppinn var í gangi og það var kveikt á ljósunum þegar ég opnaði húddið og bjó mig undir að hella á vatnskassann. Ég hafði séð bílljós í fjarska um leið og ég klöngraðist aftur upp á veginn, en leiddi hugann ekkert frekar að þeim. Það gat varla verið vandamál fyrir tvo bíla að mætast á þessum breiðasta vegi landsins. 

Þetta var Willys-jeppi, svipaður mínum. Í honum voru tveir starfsmenn af Heiðarfjalli á leið í helgarleyfi, þótt aðeins væri um sunnudaginn að ræða. Ég þekkti vel til þeirra, báðir voru frændur mínir. Ökumaðurinn var Þórhallur Jóhannesson frá Flögu og við hlið hans sat Hermundur Kjartansson frá Kúðá, en báðir þessir bæir eru í Þistilfirði. 

Í fréttum af því sem gerðist næst og eins í spjalli manna á meðal hefur iðulega verið látið að því liggja að Þórhallur hafi ekið glannalega. Svo var þó ekki. Alls ekki. Ég stóð í vetrardimmu fyrir framan bíl á röngum vegarhelmingi og þess utan má vel vera að ég hafi að skyggt á annað ljósið, jafnvel hitt líka að hluta til.  Það var mjótt á milli þeirra.  Kannski var þetta ástæðan fyrir því að svo fór sem fór. Ég hef alltént aldrei viljað skella skuldinni á frænda minn. Ég tel hreinlega að hann hafi ekki áttað sig á aðstæðunum og eigi þar enga sök.

Ég varð á milli jeppanna. Svo þungt var höggið að jeppinn minn, sem þó var í handbremsu, hentist átta metra aftur á bak. Sigurveig, farþegi minn, var barnshafandi og komin nokkuð á leið. Henni varð ekki meint af, þótt engin væru öryggisbeltin og bökin í framsætunum í Willysnum næðu bara upp að herðablöðum.  Þau veittu mænunni enga vörn í árekstri og gátu frekar aukið við skaðann ef eitthvað var.

Stuðararnir lentu neðanvert við hnén á mér og ég kastaðist í malardrulluna á götunni.  Vinstri fóturinn fór nánast strax af.  Hann hékk á nokkrum taugum, en hinn mölbrotnaði.    

Þórhallur og Hermundur ruku út úr jeppanum. Ég hélt meðvitund, þótt ég væri sárkvalinn og hefði misst mikið blóð. Ég kalla til þeirra hvað skuli gera. Þeir taka af sér buxnabeltin og reyna að stöðva blóðrásina niður í fæturna, eða það sem eftir var af þeim, með því að vefja þau fyrir ofan hnén á mér og herða að.  Síðan bera þeir mig yfir í jeppann hjá sér og leggja á milli framsætanna, þannig að herðarnar á mér og höfuðið hvíldu í aftursætinu. Sködduðu útlimirnir lágu aftur á móti á trékassa sem í voru verkfæri og eftir smástund verð ég þess var að hann er orðinn fullur af blóði.  
Útlitið var sannarlega dökkt. 

Haldið á lífi
Akureyringurinn Baldur Jónsson var héraðslæknir á Þórshöfn á þessum tíma, indæliskarl og mikið ljúfmenni. Þangað var ekið með mig í loftköstum. Til allrar hamingju var hann heima í Brimborg. Þar var bæði læknisbústaður og sjúkraskýli með aðstöðu til aðgerða. Mér var dröslað þangað inn. Allt var gert á yfirsnúningi. Það mátti engan tíma missa. Ég var orðinn mjög máttfarinn og kominn með suð fyrir eyrun af blóðmissi. Þetta stóð tæpt. Líf mitt hékk á bláþræði.

Baldur svæfði mig og stöðvaði síðan blóðrásina. Hann fór svo að leita að blóðgjafa. Ég hef ekki hugmynd um hvort eða hvernig honum tókst að finna út blóðflokkinn minn, hvað þá hvernig hann fann hentugan blóðgjafa. Um þetta hef ég einskis spurt, en mér var gefið blóð úr frænda mínum, Lárusi Jóhannssyni vörubílstjóra. Örið eftir blóðgjöfina sést ennþá, um sex og hálfum áratug síðar, og hverfur varla úr þessu.

Annar vörubílstjóri, Friðjón Jónsson, kom þarna líka að. Baldur kallaði hann stundum sér til liðsinnis þegar hann þarfnaðist aðstoðar við. Snúa þurfti sjúklingum, færa þá til, halda við hér og þar – allt þetta og ýmislegt fleira kom í hlut aðstoðarmannsins að gera svo að læknirinn gæti enn frekar einbeitt sér að því sem sneri að sérþekkingu hans.

Eftir að blóðgjöfin var komin í réttan farveg beið Baldur ekki boðanna og tók af mér vinstri fótinn við hné. Honum var ekki hægt að bjarga, en það var smuga með þann hægri. Hann var settur í gifs og einungis tærnar stóðu fram undan því.

Með snarræði sínu og fumlausum vinnubrögðum tókst Baldri lækni að halda mér á lífi. Það var kraftaverki líkast. Geri ég þó ekki lítið úr aðkomu þeirra Lárusar og Friðjóns. Hún var ómetanleg.

Ég vissi ekki til þess að fleiri hefðu komið að verki í læknisbústaðnum fyrr en haustið 2019.  Þá frétti ég það fyrir algjöra tilviljun að kona Baldurs, Sigríður Oddný Axelsdóttir, hefði aðstoðað mann sinn við aðgerðina á mér, komin nokkra mánuði á leið með fjórða barn þeirra hjóna. Hún var hjúkrunarkona og dró hvergi af sér. Ég var meðvitundarlítill þegar komið var með mig í sjúkraskýlið og það hefur eflaust valdið því að mér var ókunnugt um þátt hennar í lífgjöf minni. Svo fylgdi það sögunni að Þórhallur og Hermundur hefðu ekki fyrr verið búnir að koma mér af sér þegar leið yfir þá báða. Voru þeir þó þrælvanir sláturhúsvinnu!

Framhaldið er að sjálfsögðu í bókinni um Sidda gull, en þar er einnig margt skoplegt að finna, já og raunar bráðfyndið, enda hefur Sigmar, þrátt fyrir margvísleg áföll, þá náðargáfu að geta séð hið kímilega í tilverunni.

 Áður birst í 47. tbl. Feykis 2020

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir