Bókasafnið á Steinsstöðum sameinast Varmahlíðarstarfssöð

Rósmundur Ingvarsson, safnsvörður Bókasafns Lýtingsstaðarhrepps. Myndin tekin í maí 2017. PF.
Rósmundur Ingvarsson, safnsvörður Bókasafns Lýtingsstaðarhrepps. Myndin tekin í maí 2017. PF.

Á fundi atvinnu-, menningar- og kynningarnefndar Svf. Skagafjarðar var tekið fyrir erindi frá Þórdísi Friðbjörnsdóttur, héraðsbókaverði um rekstur bókasafna í framhéraði Skagafjarðar og samþykkt að leggja niður starfsstöð bókasafnsins á Steinsstöðum og sameina starfsstöð bókasafnsins í Varmahlíð frá og með 1. mars nk. Í fundargerð nefndarinnar segir að Rósmundur Ingvarsson hafi sinnt safninu á Steinsstöðum af einstakri natni og áhuga í marga áratugi og þakkar nefndin Rósmundi fyrir mikið og gott starf í þágu lestrar- og menningarstarfsemi í sveitarfélaginu.

Bókasafnið á Steinsstöðum á sér langa og merka sögu og var stór þáttur í menningarlífi samfélagsins í Lýtingsstaðahreppi en þar voru lestrarfélög starfandi a árum áður. Þeirra á meðal var Lestrarfélagið Neisti sem stofnað var 3. maí 1878. Feykir gerði sögu byggingarinnar, sem hýst hefur bókasafnið, skil í sumarbyrjun 2017 og fer hér á eftir.

Bókasafn Lýtingsstaðarhrepps
Lítið hús með mikla sögu

Í Steinsstaðahverfi stendur gullitað hús sem lætur ekki mikið yfir sér en geymir þó heilmikla og merkilega sögu. Sögu sem varð til í húsinu sjálfu allt frá því að það var reist 1926 en ekki síður merka sögu sem það tók í fóstur af eldra húsi á sama stað. Í þessu menningarhúsi stendur Rósmundur Ingvarsson vaktina í dag sem bókasafnsvörður.

Húsið sögulega hefur gengið undir ýmsum nöfnum í gegnum tíðina allt eftir því hver starfsemin í því hefur verið. Upphaflega hét það Laugarhúsið þar sem það stóð við gömlu sundlaugina sem nú er búið að fjarlægja. Samkomuhúsið, Fundahúsið og jafnvel Sundhúsið hefur það einnig verið nefnt og í dag er talað um Bókasafnið enda hýsir það Bókasafn Lýtingsstaðarhrepps.

Í nútíma þjóðfélagi takast oft á hugsjónir um rekstur og nýtingu ýmissa stofnana og er Bókasafn Lýtingsstaðarhrepps þar ekki undanskilið. Fyrir utan hagræðingarkröfur sveitarfélaga minnkar bókalestur og fólki fækkar í sveitum. En fyrir kemur að Rósmundur bjóði upp á heimsendingu á bókum sem fólk óskar eftir með von um aukin umsvif sem gæti bjargað safninu frá lokun. Feykir fór, ásamt fylgdarliði, til Rósmundar í bókasafnið fyrir skömmu og skoðaði sig um og var það samhljóma niðurstaða allra að varðveita þurfi húsið til frambúðar og nýta menningarlegt gildi þess. Rósmundur hefur tekið saman sögu hússins og verður hún birt hér með leyfi höfundar.

Oft heyrist talað með virðingu um Aldamótakynslóðina. Hún mun vera kennd við aldamótin 1900. Og víst er það svo að litlu fyrr og um það leiti verður mikil vakning meðal íslensku þjóðarinnar. Sá framsóknarhugur til betri lífskjara hefur verið mikill, ekki síst hér í Lýtingsstaðahreppi eða Tungusveit eins og þetta pláss hét a.m.k. um skeið.

Flest þau félög sem hér hafa verið talin, hafa verið stofnuð til að vinna að vakningar- og framfaramálum og til að bæta lífskjörin og mannfélagið. Og vissulega hefur mikið áunnist.

Bindindis- og lestrarfélag Mælifellsprestakalls
Þegar fyrsta félagsheimili við Steinsstaðalaug var byggt, líklega 1899, var það Bindindis- og lestrarfélag Mælifellsprestakalls sem var þar í forystuhlutverki og síðar var sagt að það ætti húsið. Annars er tiltölulega lítið ljóst um það félag, nema um það leyti var sr. Jón Ó. Magnússon á Mælifelli þar fremstur í flokki. Aðrir sem nefndir hafa verið fremstir í flokki í stúkunni voru Árni á Reykjum og Brynjólfur vinumaður á Skíðastöðum. Sá síðarnefndi dó árið 1900 úr inflúensu. Húsið hefur kannski ekki verið kallað félagsheimili í þá daga, en það var notað bæði sem fundarstaður og sem skýli fyrir nemendur á sundnámskeiðum.

Sundkennslan hófst hér árið 1822 og þetta er einn allra elsti sundkennslustaður á Íslandi. Sveitarstjórn, eða hreppurinn, styrkti byggingu hússins og sýslunefnd veitti talsvert fjármagn. Árið 1904 kom til greina að flytja þingstað hreppsins frá Lýtingsstöðum og í Laugaból, eins og húsið við Steinstaðalaug hét þá. Þinghús hreppsins þótti þá bæði illa úr garði gert og lítið, eins og komist er að orði í fundargerð. Þetta náði ekki fram að ganga vegna mikillar andstöðu og vildu menn heldur byggja nýtt þinghús á Lýtingsstöðum. Jóhann P. Pétursson hreppstjóri á Brúnastöðum bauðst þá til að gefa fé til þeirrar þinghúsbyggingar og fá fleiri til að gera hið sama. Og nýtt þinghús var byggt á Lýtingsstöðum árið 1908.

Málfundafélagið Framför
Í áðurnefndi fyrsta húsi við Steinstaðalaug var Málfundafélagið Framför stofnað 5. nóvember 1905. Síðar var nafni félagsins breytt í Ungmennafélagið Framför. Framför var eitt af allra fyrstu ungmennafélögum á Íslandi. Ungmennafélagið Æskan í Staðarhreppi var þó stofnað nokkrum dögum fyrr. Hér verður vitnað í ritgerð eftir Jón Sigurðsson á Reynistað:

„Það er haft fyrir satt, að ungmennafélagshreyfingin hafi borist hingað frá Noregi og að fyrsta ungmennafélagið hafi verið stofnað á Akureyri 7. janúar 1906, eða nokkrum mánuðum eftir að fyrstu félögin í Skagafirði tóku til starfa. Ef til vill hanga einhverjir í því, að fyrstu æskulýðsfélögin í Skagafirði notuðu ekki ungmennafélagsnafnið. Í stað þess kenndi annað þeirra sig við framfarir og hitt við æskuna. Lög þessara félag voru frá upphafi þannig, að þegar þau tengdu ungmennafélagsheitið við nafn sitt, þurftu þau enga aðra breytingu að gera á lögum félaganna, til þess að þau væru í fullu samræmi við lög þeirra félaga, er höfðu starfað undir ungmennafélagsnafninu frá öndverðu.“ Félagið Æskan í Staðarhreppi hefur samkvæmt þessu verið fyrsta Ungmennafélag á Íslandi og Framför komið næst.

Eins og fyrr segir var fyrsta húsið við Steinsstaðalaug byggt (líklega) 1899. Samkvæmt heimildum var það torfhús, þiljað innan og með trégólfi. Það var að hluta notað í sambandi við sundkennsluna og var fyrsta sundskýlið í Skagafirði. Þetta hús eignaðist Ungmennafélagið Framför árið 1917 og eigi löngu síðar var það rifið. Nýtt hús, Laugarhúsið sem enn stendur, var svo byggt 1926 og ungmennafélagið átti það.

Sagt hefur verið að á stofnfundi Framfarar 1905 hafi verið átta menn og fleiri gengu svo í félagið á næstu fundum. Í upphafi mun þetta eingöngu hafa verið málfundafélag, en fljótlega var farið að æfa íþróttir jafnframt ræðumennskunni. Á þeim árum voru venjulega 40 – 50 manns á fundum félagsins en yfir veturinn voru fundir annan hvern sunnudag. Á þeim árum er sagt að verið hafi blómaskeið glímunnar um allt land og á fundunum æfðu menn glímu.

Þegar stúlkurnar fóru að ganga í félagið bættist svo dansinn við. Síðar varð þó félagsstarfið fjölþættara og árið 1910 gaf Jóhann hreppstjóri á Brúnastöðum félaginu land undir gróðrarstöð, með því skilyrði að þar verði hafin trjárækt. Eftir það hófst þar kartöflurækt og gróðursetning trjáplantna og var sagt að það hafi verið saga út af fyrir sig. Seinna varð þó félagið af með þann blett.

Eftir að félagið fékk land úr landareign Steinsstaða var á þess vegum allmikil kartöflurækt þar. Voru garðarnir neðan við brekkuna, vestan Steinstaðaskólann, og ræktuðu félagar þar hver fyrir sig og greiddu félaginu leigu. Hafa sumir gert það fram til þessa en að mestu er hætt að nota þetta garðland.

Ungmennafélagið Framför mun hafa stuðlað að fjölmörgum framfaramálum í hreppnum. Þannig lagði það til lóðina undir Barnaskóla Lýtingsstaðahrepps – Steinsstaðaskóla, en lóð hans er hluti af því landi sem félagið fékk til eignar. Til stóð að nýtt félagsheimili yrði byggt á landi félagsins og þar að auki var hluti landsins ætlaður fyrir íþróttavöll, sem nú er orðið að veruleika. Hins vegar varð það úr að hreppurinn lagði til lóð undir félagsheimilið Árgarð, eftir að hafa keypt þar jarðeignir.

Laugarhúsið stóð við sundlaugina sem þótti glæsilegt mannvirki. Laugin var tvískipt; sú stærri var heit en sú minni köld. Mynd: Þórður P. Sighvats.

Steinsstaðalaug
Sundkennsla í Steinsstaðalaug var hafin löngu áður en ungmennafélagið kom til sögu og var sundkennslan ekki á vegum félagsins, en svo tók félagið við að sjá um sundkennsluna. Sundkennsla við Steinsstaðalaug hófst 1822 og fór þar fram, með einhverjum hléum, fram til loka 20. aldar. Lengi var þetta besti sundkennslustaður í héraðinu og sóttu þangað margir úr öðrum hreppum héraðsins. Þannig var á þessum stað byggt fyrsta sundskýli í sýslunni, sem var áðurnefnt fundahús. Eftir að eldra húsið við Steinsstaðalaug hvarf úr sögu, var ungmennafélagið húsnæðislaust um skeið og þá dofnaði yfir starfsemi þess í bili.

Það var ungmennafélagið Framför sem byggði Laugarhúsið 1926 og ekki bara húsið heldur líka sundlaug og reyndar heldur tvær en eina. Allt var þetta byggt úr steinsteypu. Húsið var byggt fyrst og aðalsmiður við það var Pétur Sigurðsson frá Geirmundarstöðum, sem er þekktastur fyrir að vera tónskáld og söngstjóri. Húsið var og er u.þ.b. 71 fermetri að stærð og í því var leiksvið í suðurenda og undir því var kjallari, þar sem kaffisala fór fram á samkomum.

Húsið var um alllangt skeið eitt af aðal samkomustöðum héraðsins. Þar voru opinberir dansleikir, kaffikvöld á vegum félagsins og framboðsfundir vegna alþingiskosninga, svo nokkuð sé nefnt. Húsið var ýmist nefnt Laugarhúsið eða Samkomuhúsið við Steinstaðalaug.

Félagið átti ekki lóðina undir húsinu og m.a. þess vegna var horfið að því ráði að byggja nýtt félagsheimili þegar þetta þótti orðið of lítið og úrelt vegna breyttra tíma. Þegar svo nýtt félagsheimili var komið í notkun, þá keypti sveitarfélagið Lýtingsstaðahreppur Laugarhúsið til afnota fyrir skólann og þá var innréttingum hússins breytt. Nú er þar bókasafn Lýtingsstaðahrepps.

Umræðan um- og undirbúningur að byggingu nýs félagsheimilis var hafinn í ungmennafélaginu fyrir 1960, (í jan. 1957 eða fyrr). Á félagsfundi 22. janúar 1957 var samþykkt að ráðast í byggingu nýs félagsheimilis. Leitað var til annarra félaga innan hreppsins og til hreppsins sjálfs um þátttöku í byggingunni og varð það niðurstaðan að sveitarfélagið (hreppurinn) yrði með meira en helmings hlut á móti ungmennafélaginu og öðrum félögum en allstór hluti var kostaður af Félagsheimilasjóði ríkisins og af ríkinu vegna skóla, því ákveðið var að nota húsið til íþróttakennslu á vegum skólans. Undirbúningur og bygging hússins, Árgarðs, stóð yfir í mörg ár. Það var vígt og tekið í notkun 1. desember 1974.

Lestrarfélagið Neisti 
Lestrarfélagið Neisti í Lýtingsstaðahreppi var stofnað 3. maí 1878. Forgöngumenn voru Jón Jónsson á Mælifell og Árni Eiríksson þá í Sölvanesi. Fyrsti formaður var Árni Eiríksson og með honum í fyrstu stjórn voru Jón Jónsson og Eiríkur Guðmundsson. Félagar voru 20 fyrsta árið. Á öðrum tilgreindum fundi var stofnuð deild bindindismanna. Þá var talað um að stofna til unglingaskóla í hreppnum. Í þessum félagsskap voru starfsárið 1891 – 1892 48 félagar, m.a. menn frá Þorljótsstöðum, Skatastöðum og Merkigili, en alls frá 30 bæjum. Og meðal félaga voru tveir prestar, enda var þá prestsetur bæði á Goðdölum og á Mælifelli.

Árið 1897, eftir að starfsemi félagsins hafði legið niðri um skeið, var ákveðið að selja bækurnar á einhverju uppboði í hreppnum, en þegar til kom neitaði uppboðshaldarinn að selja bækurnar og varð því ekki af sölu í það sinn. Í framhaldi af því var tekin sú ákvörðun að skipta félaginu og bókakostinum milli prestakallanna. Hinn 22.október 1897 var svo stofnað Bindindis- og lestrarfélag Mælifellsprestakalls. Hlaut það 3/5 af bókakostinum, en væntanlegt félag í Goðdalaprestakalli hlaut 2/5.

Á þessum fyrstu árum lestrarfélaganna voru nokkrar konur meðal félaga og árið 1901 eru taldir í Mælifellsprestakallsfélaginu 40 félagar þar af 22 konur. Annars munu karla oftast hafa verið fleiri. Laust fyrir aldamótin 1900 var farið að halda fundi félagsins í Sundhúsinu við Steinsstaðalaug, eins og það er nefnt í fundargerð. Árið 1903 var félaginu breytt yfir í að vera aðeins lestrarfélag.

Starfsemi lestrarfélaganna var einkum fólgin í því að afla peninga til að kaupa bækur, sem síðan gengu milli félagsmanna. Var bókum, einkum nýju bókunum, skipt í flokka (svonefnda), þeim komið fyrir á vissum bæjum á dreif um félagssvæðið og flokkarnir síðan færðir til eftir ákveðinn tíma, þannig að þeir færu einn hring yfir veturinn. Árið 1919 voru bókaflokkar L.M. hafðir á fimm stöðum á félagssvæðinu. Þegar Kristján Jóhannesson á Reykjum var formaður félagsins, smíðaði hann sérstaka kassa eða trétöskur undir bókaflokkana með hólfi fyrir hverja bók. Þeir ágætu gripir eru enn til. Lestarfélag Mælifellsprestakalls lifði til ársins 1979, er bókasöfnun í hreppnum voru sameinuð og sett upp í Laugarhúsinu.

Rósmundur sýnir blaðamanni surtarbrand sem er til sýnis á safninu meðal annarra hluta. Mynd: PF

Lestarfélag Goðdalasóknar og Ungmennafélagið Bjarmi 
Lestarfélag Goðdalasóknar hefur líklega verið stofnað eitthvað fyrir aldamótin 1900. Þann 3. maí árið 1878, var stofnað lestrarfélag í Goðdala- og Mælifellsprestaköllum. En árið 1897 var ákveðið að leggja Lestrarfélagið Neista niður og stofna í staðinn tvö lestrarfélög. Í Mælifellsprestakalli hlaut félagið nafnið Bindindis- og lestarfélag Mælifellsprestakalls og skyldi sinna tveimur verkefnum. Það liggur því beinast við að ætla að Lestrarfélag Goðdalasóknar hafi verið stofnað 1897.

Gjörðabók Lestrarfélags Goðdalasóknar, sem fyrir hendi er, hefst á árinu 1909, 31.maí, og þá eru kosnir í stjórn félagsins: Tómas Pálsson, formaður; Ófeigur Björnsson, innheimtumaður; Guðmundur Ólafsson, bókavörður; Guðríður Guðnadóttir og Dýrólína Jónsdóttir. Tómasi var þá falið að semja „frumvarp til laga fyrir félagið“.

Lög félagsins voru lögð fyrir aðalfund seinna, (samþ. 1922), og í þeim segir m.a.: Tilgangur félagsins er að auka menntun og þekkingu félagsmanna, glæða hjá þeim félagsanda og framfarahug og efla ánægju þeirra. Lögð var áhersla á að útvega nytsamar og góðar bækur, sem menn gætu haft bæði gagn og gaman af. Árið 1910 var haldin tombóla til að afla peninga til að kaupa bækur fyrir. Ágóðinn var 5 krónur.

Það ár greiddu 30 manns árgjald til félagsins, 50 aura hver. Samkvæmt gjörðabók hefur félagið þá átt árið 1917, 124 bækur, en af þeim voru örfáar seldar. Félagar voru þá 18. Félagið hefur mjög snemma farið að halda skemmtisamkomur til að afla fjár og þá voru gjarnan hafðar svonefndar tombólur eða jafnvel bögglauppboð. Þá greiddu félagar árgjald til félagsins og fyrstu árin var einhver hluti bókanna seldur eftir að þær höfðu gengið milli félagsmanna.

Fram kemur, að 1918 voru nýju bækurnar settar í fjóra flokka, en hinar bækurnar lánaðar út frá Goðdölum á messudögum. Bókaflokkunum var svo komið fyrir á jafnmörgum bæjum og svo lánaðar út þaðan. Flokkarnir síðan færðir til eftir ákveðinn tíma. Þannig var þetta mestan hluta þess tíma sem félagið starfaði

Vorið 1921 var á aðalfundi Lestarfélagsins rætt um og ákveðið að stofna ungmennafélag í Goðdalasókn og ætluðu 15 af 22 er á fundinum voru, að gerast stofnendur þess. Kosin var þriggja manna nefnd til að semja stefnuskrá fyrir hið nýja félag.

Þótt Lestrarfélagið væri kennt við Goðdalasókn, þá voru sumir félagarnir búsettir utan þeirrar kirkjusóknar og á seinni starfsárum náði félagssvæðið yfir u.þ.b. hálfan hreppinn, enda var annað lestarfélag í útparti hreppsins. Félagatalan er oft milli 10 og 20 en stundum um 30.

Rósmundur Ingvarsson, safnstjóri, ásamt Öldu Ellertsdóttur og Ingvari Gýgjar Jónssyni, ferðafélögum blaðamanns. Til gamans má geta að að afar þeirra þriggja voru bræður, Páll, Sveinn og Jón Jónssynir frá Hóli í Sæmundarhlíð. Mynd: PF.

Árið 1930 var Ungmennafélagið Bjarmi starfandi og höfðu þá þessi tvö félög sameiginlega aðalfundi. Lestrarfélagið var þá í fjárþröng og ungmennafélagið tók að sér starfsemi þess í sérstakri deild. Einn maður var þá kosinn til að sjá um bókakaup. 1939 kemur fram í fundargerð að samstarfi þessar tveggja félaga væri lokið.

Ekki verður sögu Lestrarfélags Goðdalasóknar gerð mikil skil án þess að nefna nafn eins manns, sem lengi hafði veg og vanda af félaginu og bókasafni þess. Það var Jón Einarsson á Tunguhálsi. Hann var kosinn í stjórn félagsins 1932 og var síðan aðalmaður í starfi félagsins langt árabil. Rækti það starf af mikilli trúmennsku og dugnaði. Mun bókasafnið hafa vaxið mjög á því tímabili. Lengi var safnið uppsett í hillur á Tunguhálsi í umsjá Jóns. Síðar var því komið fyrir á öðrum bæjum, stundum skipt á þrjá staði.

Þannig var það um skeið á kirkjuloftinu í Goðdölum, en síðast var það í góðri geymslu í Árnesi, uppsett í einu herbergi í húsinu þar. Árið 1979 var þetta bókasafn sameinað tveimur öðrum bókasöfnum í Lýtingsstaðahreppi og þau sett upp í Laugarhúsinu, undir nafninu Bókasafn Lýtingsstaðahrepps. Af þessum þremur söfnum var bókasafn Lestrarfélags Goðdalasóknar stærst. Lestrarfélagið var líklega ekki lagt niður formlega.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir