Blanda komin á yfirfall og veiði hætt
feykir.is
Austur-Húnavatnssýsla
18.08.2020
kl. 11.27
Miðfjarðará rauf þúsund laxa múrinn í vikunni og að kvöldi 12. ágúst var búið að veiða 1.121 lax í ánni. Vikuveiðin var 201 lax og er því góður gangur í laxveiðinni þar. Miðfjarðará er þriðja aflamesta á landsins samkvæmt vef Landssambands veiðifélaga. Blanda, sem nú er komin á yfirfall, er komin í 475 laxa sem er heldur minni veiði en á sama tíma í fyrra en talsverðar breytingar voru gerðar á veiðifyrirkomulagi í ánni í sumar. Maðkur var bannaður og sleppiskylda sett á stórlax og kvóti á smálax. Veiði hefur nú verið hætt í Blöndu á meðan hún er á yfirfalli.
Laxá á Ásum er komin í 453 laxa en stóð í 502 löxum 14. ágúst í fyrra. Víðidalsá er komin í 335 laxa sem er um 100 löxum meira en á sama tíma í fyrra. Vatnsdalsá er komin í 225 laxa sem er svipaður fjöldi og í fyrra. Ágætur gangur hefur verið í Hrútafjarðará og Svartá en veiðst hafa 210 laxar í þeirri fyrrnefndu og 87 laxar í þeirri síðarnefndu.
/húni.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.