Bjóðum nýja Íslendinga velkomna
Á lokadegi Alþingis var samþykkt þingsályktunartillaga Samfylkingarinnar um mótun stefnu sem eflir fólk af erlendum uppruna til þátttöku í samfélaginu en fyrsti flutningsmaður er greinarhöfundur. Þetta var í annað sinn sem tillagan er lögð fyrir þingið og það ánægjulega gerðist að hún hlaut nú brautargengi.
Á Íslandi hafa aldrei verið fleiri innflytjendur en nú um þessar mundir og hefur fjölgað býsna hratt undanfarin ár þótt eðlilega sé eitthvert uppihald á þeirri þróun eins og nú hagar til um gervallan heiminn.
Hlutfall innflytjenda á Íslandi er mjög nálægt því sem gerist og gengur meðal annarra Evrópuþjóða eða um 14%.
Farendur og flóttafólk
Fólk er á faraldsfæti um heimsbyggðina af ýmsum ástæðum. Meirihluti innflytjenda flytur af eigin ósk eða um 90%. Aðeins 10% flýja átök og ofsóknir en það er átakanlegt hlutskipti þeirra sem í hlut eiga. Þótt við leysum ekki þann vanda allan hér á litla Íslandi, þá getum við ekki skellt skollaeyrum við, látið sem ekkert sé.
Samkvæmt nýrri skýrslu Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna hefur 1% jarðarbúa eða nærri 80 milljónir manna orðið að flýja heimili sín vegna stríðs, átaka og ofsókna. Það er hins vegar talið að um 500 milljónir manna séu skilgreindir sem farendur í heiminum sem leitar öryggis og betra lífsviðurværis fyrir sig og sína nánustu, leitar að skjóli og öryggi fyrir börnin sín.
Ísendingar jákvæðir
Íslendingar mælast með jákvæðustu viðhorf til innflytjenda og fjölmenningar í Evrópu samkvæmt viðhorfskönnun European Social Survey. Auk þess kemur fram að meirihluti landsmanna vill að ríkisstjórnin veiti mörgum hælisleitendum dvalarleyfi. Við trónum þarna á toppnum með Írum og Svíum.
Þetta þarf kannski ekki að koma á óvart ef horft er til sögu okkar í bráð og lengd. Íslendingar hafa verið talsvert á ferðinni og sótt heim aðrar þjóðir og valið að búa þar um lengri og skemmri tíma, þekkja vel þá reynslu að setjast að á framandi slóðum.
Hvers vegna förum við?
Oftast er þetta gert af fúsum og frjálsum vilja, ákvörðun hins frjálsa manns en þeir tímar hafa komið í sögu okkar að fólk hreinlega flúði örbirgð og vesöld, atvinnuleysi og fátækt. A.m.k. 14.000 Íslendingar fluttu þannig til Vesturheims á ofanverðri 19. öldinni. Skemmst er líka að minnast þeirra þúsunda sem fluttu frá landinu í efnahagshruninu fyrir rúmlega áratug til annarra landa í leit að betra hlutskipti.
Eins og staðan er núna, þá eru rúmlega 46.000 íslenskir ríkisborgarar með skráða búsetu í útlöndum og íslenska ríkisborgara að finna í 118 ríkjum af 193 aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna. Íslendingar búa því bókstaflega um alla jörð og ekki undarlegt að þeir taki af skilningi nýjum þegnum sem auðgað geta og bætt okkar samfélag um leið og sitt eigið líf.
Skipulagður undirbúningur
Rannsóknir sýna að þær þjóðir sem leggja áherslu á og setja í forgang vandaða aðlögun innflytjenda að vinnumarkaði og samfélagi uppskera mestan ábata. Mikilvægt er því að stjórnvöld hafi frumkvæði að jákvæðri samfélagsumræðu. Stóra Stóra atriðið er að aðlögun þarf að vera á forsendum beggja, vera tvíhliða og gagnkvæm þar sem borin er virðing fyrir menningu, tungumáli og uppruna viðkomandi. Í öllu þessu ferli ræður skilningur, upplifun og viðhorf heimafólks líka úrslitum.
Langt í land
Við eigum langt í land með að geta sagst standa framarlega í móttöku innflytjenda og þeir standa hér höllum færi eins og víða í öðrum löndum. Við sjáum það á vinnumarkaðnum. Atvinnuleysi er t.d. meira hér meðal innflytjenda en innfæddra. Reynsla annarra þjóð sýnir einnig að launakjör innflytjenda eru lakari en innfæddra. Skv. úttektum nemur það allt að 20 – 30% í sambærilegum starfsgreinum. Þá eiga innflytjendur á brattan að sækja á húsnæðismarkaði og við þekkjum mörg ömurleg dæmi þess sem ratað hafa í fjölmiðla. Mun færri hefja framhaldsnám og enn færri ljúka framhaldsnámi en innfæddir, hátt brottfall er staðreynd og það er takmarkaður stuðningur í skólakerfinu. Við metum með ófullnægjandi hætti menntun innflytjenda og viðurkennum ekki vel fagleg réttindi. Í Evrópu er áætlað að 22% innflytjenda hafi menntun umfram það sem krafist er í viðkomandi starfi á móti 13% innfæddra.
Stefna um vandaða móttöku
Fjölgun innflytjenda hefur verið mikil hjá okkur á allra síðustu árum miðað við nágrannalöndin og við erum reynsluminni á þessu sviði. Svíar og Kanadamenn hafa t.d. þróað mér sér kerfi í sinni innflytjendastefnu og njóta þess í betri þátttöku á vinnumarkaði og í samfélaginu öllu og af þeim getum við margt lært.
Við skulum vinna að því og gera það hluta af samfélagssáttmála okkar að vera þjóðin sem veit og skilur hvað innflytjendur skipta miklu máli.
Guðjón S. Brjánsson,
alþingismaður Samfylkingarinnar í NV kjördæmi
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.