Bergsveinn, Einar Már og Dorothy Koomson í uppáhaldi
Ingibjörg Rósa Auðunsdóttir á Kollsá í Hrútafirði kann vel að meta góðar bækur og lesefnið er fjölbreytt. Á heimili hennar er til góður bókakostur en þegar hún var beðin að áætla bókaeign sína segist hún hafa talið um 350 bækur í bókahillunum á Kollsá. Inga segist þó ekki lengur kaupa margar nýjar bækur yfir árið, heldur taka meira að láni, og heimsækir hún bókasafnið á Hvammstanga reglulega. Hún var viðmælandi bókaþáttar í fermingarblaði Feykis árið 2019.
Hvers konar bækur lestu helst?
Ljóðabækur hafa fylgt mér frá svo að segja fermingaraldri, ævisögur hef ég gaman af að lesa svo og margvíslegar íslenskar og erlendar skáldsögur.
Hvaða bækur voru í uppáhaldi hjá þér þegar þú varst barn?
Ég átti allar Gunnu- og Kátubækurnar, svo var Lína langsokkur í uppáhaldi og er reyndar enn. Aðal-sögupersónurnar voru allar magnaðar kvenpersónur sem lentu í ýmsum aðstæðum og leystu vel úr þeim.
Hver er uppáhaldsbókin af þeim sem þú hefur lesið gegnum tíðina?
Uppáhaldsbækurnar mínar eru helst þessar: Sjálfstætt fólk eftir Laxness. Hana las ég á frívöktum fyrsta sumarið mitt við vinnu í Staðarskála, þá 18 ára. Ljósa eftir Kristínu Steinsdóttur er mögnuð bók, skrifuð af miklu innsæi um aðstæður aðalpersónunnar og hennar nánustu. Það er í raun mannbætandi að lesa þá bók. Svar við bréfi Helgu og Landslag er aldrei asnalegt eftir Bergsvein Birgisson eru líka í uppáhaldi sem og Náðarstund eftir hina áströlsku Hönnuh Kent. Þýðing Jóns St. Kristjánssonar er einstök. Við lestur hennar kom það fyrir að ég fletti 1-2 bls. til baka til lesa fallegan textann aftur.
Hver er þinn uppáhaldsrithöfundur og hvers vegna?
Uppáhaldsrithöfundar mínir eru Bergsveinn Birgisson, Einar Már Guðmundsson og Dorothy Koomson. Þau hafa efnistök og skrifa texta sem mér fellur vel.
Hvaða bækur eru á náttborðinu hjá þér þessa dagana?
Nú er ég að lesa Hlaðhamar eftir Björn Th. Björnsson og einnig Annað líf eftir Auði Jónsdóttur. Ljóðabókin á náttborðinu er Ljóðmæli 1. bindi eftir Pál Ólafsson sem kom fyrst út árið 1899.
Áttu þér uppáhaldsbókabúð?
Uppáhaldsbókabúðin mín er Penninn Eymundsson á Akureyri, þar er líka svo gott kaffi. Svo er frábært að kíkja við í grænu kassana hjá bóksölunum á Signubökkum í París, þeir eru nokkurs konar "Bragar" Parísarborgar.
Hvað kaupirðu eða eignast að jafnaði margar nýjar bækur yfir árið?
Nýjar bækur yfir árið eru ekki svo margar, ég tek núorðið meira að láni, en ég held svona á bilinu 5-8 bækur.
Eru ákveðnir höfundar/bækur sem þú færð „alltaf“ í jólagjöf?
Ég fæ ekki alltaf bækur eftir ákveðna höfunda í jólagjöf, en þegar bókatíðindi koma þá panta ég mér oft bók að gjöf og kem því á framfæri við minn mann.
Hefur einhver bók sérstakt gildi fyrir þig?
Ég á bók sem hefur tilfinningalegt gildi fyrir mig. Ég er alin upp við mikið dálæti á Páli V.G.Kolka, fyrrverandi héraðslækni á Blönduósi. Hann ritaði héraðslýsingu Austur Húnavatnssýslu og kom hún út 1959 í bókinni Föðurtún. Pabbi minn, Auðunn Guðjónsson, átti þessa bók og var hún iðulega á náttborðinu hans. Nokkru áður en hann kvaddi vildi hann gefa mér bókina, sem ég og þáði. Hann ritaði inn í hana „Til Ingu frá pabba" og var það í síðasta sinn sem hann skrifaði í sínu lífi. Mér þykir afar vænt um þessa bók.
Hefur þú heimsótt staði sem tengjast bókum eða rithöfundum þegar þú ferðast um landið eða erlendis?
Ég hef komið í Sænautasel á Jökuldalsheiði. Það er af sumum talið að fyrirmyndin af umhverfi Bjarts í Sumarhúsum sé þaðan komin. Ég hugsaði til þess er við áðum þar. Mig langar að heimsækja strandbæinn Brighton á suðurströnd Englands og ganga með sjónum. Sögusvið margra af bókum Dorothy Koomson er þaðan.
Ef þú ættir að gefa einhverjum sem þér þykir vænt um bók, hvaða bók yrði þá fyrir valinu?
Ef ég ætti að gefa einhverjum sem mér þætti vænt um bók, þá held ég að ég myndi hreinlega velja Litla prins, (franska: Le Petit Prince) eftir Antoine de Saint-Exupéry sem kom út árið 1943. Þessi setning úr bókinni: „Maður sér ekki vel nema með hjartanu. Það mikilvægasta er ósýnilegt augunum." er tímalaus og á alltaf vel við, alla.) Í þessari bók er minna einfaldlega meira.
Manstu eftir einhverjum bókum sem þú fékkst í fermingargjöf?
Ég fékk íslenska orðabók í fermingargjöf og hún kom sér afar vel seinna meir.
Hvaða bækur lastu helst þegar þú varst á fermingaraldri?
Mig minnir að ég hafi verið að lesa Pollýönnubækurnar um fermingu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.