Ástir, ástarsorgir, sigrar og töp – og Tinder

Björgin Gunnarsson, eða Lubbi klettaskáld, les úr verkum sínum. MYND AF NETINU
Björgin Gunnarsson, eða Lubbi klettaskáld, les úr verkum sínum. MYND AF NETINU

Sumarið 2016 var Björgvin nokkur Gunnarsson ráðinn til sumarafleysinga á Feyki og þeysti um Norðurland vestra og nágrannasveitir á KIA-bifreið sinni. Björgvin, telst til Fellsbæinga, er semsagt frá Fellabæ sem er í næsta nágrenni við Egilsstaði. Fyrir jólin stefnir Björgvin, sem nú býr í Hafnarfirði, á að gefa út sína sjöttu ljóðabók undir listamannsnafninu Lubbi klettaskáld. Bókin ber hið ágæta nafn Svolítið sóðalegt hjarta og þar eru ástir, ástarsorgir, sigrar og töp – og Tinder – í öndvegi.

„Ég fór bæði í andlega lægð, þar sem ég gekk meðal annars í gegnum sambandsslit og fékk ritstíflu. Það leið þó nokkur tími án þess að ég skrifaði ljóð en ég byrjaði aftur fyrir um tveimur árum og þá brast stífla,“ segir skáldið í samtali við Austurfréttir en hann sendi síðast frá sér ljóðabók árið 2012. „Ég lét gera 40 eintök og útgáfan var einföld og ódýr. Ég seldi hana fyrir austan um jólin og ágóðinn dugði mér þannig ég gæti keypt mér bensín og komist aftur suður,“ rifjar hann upp. Bókin sú, sem kallaðist Skapalón, var endurútgefin af Bókstaf árið 2015.

Titillinn á nýju bókinni er fenginn frá dóttur Björgvins sem var að teikna afmæliskort til bróður hans. Vatnsdropi féll á kortið og kámaði út teikningu af hjarta sem varð til þess að barnið skrifaði afsökunarbeiðni fyrir „svolítið sóðalegt hjarta.“ Setningin festist í Björgvini og rifjaðist upp fyrir honum þegar bókin komst á skrið.

Hann segist áður hafa hafa gert grín að skáldum fyrir að vera alvarleg og óskiljanleg og í fyrstu ljóðabókum Lubba klettaskálds mátti því oft á tíðum finna bráðsmellin og pínu háðsk ljóð. Þó húmorinn sé aldrei langt undan hjá Lubba hafa síðustu bækur fengið alvarlegri tón og Lubbi farinn að lesa upp úr bókum sínum með hatt á höfði – eins og öll alvarleg og óskiljanleg skáld gera. Blaðamaður Feykis hafði samband við Björgvin og byrjaði að sjálfsögðu á að spyrja hvort ekkert ljóð í bókinni fjallaði um tíma hans á Feyki. „Nei, því miður en það hlýtur að vera vegna þess að mér leið svo vel á Sauðárkróki,“ segir hann.

Hverju mega lesendur eiga von á í bókinni? „Lesendur mega búast við ljóðum því þetta er jú ljóðabók. Já og tilfinningarússíbani.“

Er kófið spennandi jarðvegur fyrir skáld með blæðandi hjarta? „Já, algjörlega, því í kófinu hefur maður alltof mikinn tíma með sjálfum sér og sínum skrítnu hugsunum sem erfitt er að flýja nema með því að koma þeim úr kollinum og á blað.“

Hvar er draumurinn? „Ef spurt er um súkkulaðidrauminn frá Freyju, fæst hann í öllum helstu sjoppum og Kaupfélögum (lesist Kaupfélag Skagfirðinga). En hinn huglægi draumur er í maganum, hann er ekki í hausnum af einhverri undarlegri ástæðu.

Björgvin hefur síðustu vikur safnað fyrir útgáfunni á Karolina Fund. Söfnuninni lýkur á næstu dögum en Björgvin segir hana almennt hafa gengið ágætlega. Gangi allt að óskum líti bókin dagsins ljós fyrir jól. Áhugasamir eru hvattir til að styðja skáldið, jafnvel tryggja sér eintak með því að gera smá bisness á Karalina Fund.

Hér er að lokum eitt sýnishorn úr Svolítið sóðalegu hjarta:

 

fortíðarþráhyggja

kæri sáli
gætir þú vinsamlegast
fjarlægt þessa löngun mína
í það sem ekki
stendur lengur til boða?

það er austfjarðaþoka
í huga mér
sem byrgir mér framtíðarsýn  

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir